137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er alveg nauðsynlegt að skilningur ríki á því í sölum Alþingis að ástæðan fyrir því að Seðlabankinn getur ekki lækkað vextina, í það minnsta að sínu mati, er að fyrir liggur að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum hafa ekki litið dagsins ljós. Sá tími sem það hefur tekið ríkisstjórnina að koma þessum málum saman, þótt vissulega séu þau erfið, gerir það að verkum að vandinn í samfélaginu eykst með hverjum einasta degi sem líður.

Þetta háa vaxtastig, sem er vegna þess að það er ekki hægt að lækka vextina af því að ríkisstjórnin hefur ekki klárað sitt, gerir það að verkum að vandi ríkissjóðs eykst með hverjum deginum sem líður. Hið háa vaxtastig grefur undan allri atvinnustarfsemi í landinu, allri verðmætasköpun sem gerir það að verkum að skatttekjurnar dragast saman og vandinn verður erfiðari og erfiðari.

Í Morgunblaðinu í gær, virðulegi forseti, kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að vandinn í ríkisfjármálum væri meiri en menn héldu. Að sjálfsögðu er vandinn orðinn meiri en menn héldu. Hann fer stigvaxandi vegna þess að atvinnustarfsemi og atvinnulífið í landinu kemst ekki af stað vegna þess að vextirnir eru allt of háir. Þetta hangir allt saman.

Það er bara eitt mál sem ríkisstjórnin verður að klára, og ætti að vera búin að klára af því að þessir flokkar hafa setið að völdum frá því í febrúar, og það eru aðgerðir í ríkisfjármálum og síðan í framhaldi af því verður að klára það að koma saman ríkisbönkunum.

Þetta eru þessi tvö mál sem gera það að verkum að vextirnir lækka ekki nægilega hratt. Þetta eru manndrápsvextir, virðulegi forseti, sem gera það að verkum að heimilin og fyrirtækin í landinu komast ekki af stað. Það er (Forseti hringir.) samhengi hlutanna sem skiptir hér máli. Þessu verður að linna.