137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Vaxtaákvörðun Seðlabankans í morgun er auðvitað veruleg vonbrigði en menn geta ekki farið þannig fram úr sér að vextir hafi verið að hækka í morgun því að hv. þingmenn verða að hafa það í huga að þeir voru að lækka og á þeim stutta tíma frá því að þessi ríkisstjórn hefur tekið við hafa þeir lækkað verulega. Ég tel hins vegar að hér hafi menn verið sammála (Gripið fram í.) um það að forsendur væru fyrir enn frekari vaxtalækkun í morgun og að aðilar vinnumarkaðarins hafi sömuleiðis verið sammála um að það væru forsendur í íslensku efnahagslífi eftir það sem ríkisstjórnin hefur gert á síðustu mánuðum til að lækka vexti enn frekar. Til þess að ná síðan enn meiri árangri þá er það alveg rétt sem hefur komið fram að hér þarf að taka stærstu og erfiðustu ákvarðanir í lýðveldissögunni í ríkisfjármálum. Auðvitað geta menn komið upp og gagnrýnt ríkisstjórnina harkalega fyrir að hafa ekki kynnt aðgerðir að umfangi 170 milljarða, nærri 2 millj. kr. á hvert heimili í landinu, á þeim mánuði sem liðinn er frá kosningum.

Ég get aðeins sagt að þar verða menn þó að sýna þann skilning að verkefnið er gríðarlega stórt, það er gríðarlega viðkvæmt og það er gríðarlega mikilvægt að til þeirra tillagna sé vandað. Það er betra að í það séu teknar nokkrar vikur heldur en (Gripið fram í.) að þær aðgerðir verði til þess að dýpka enn efnahagssamdráttinn, til þess að auka enn vanda okkar og til þess að halda enn vöxtunum háum. Þeir sem vaða upp í ræðustólinn og gagnrýna ríkisstjórnina skulu minnast þess að sannarlega var í dag, þó að ekki hafi nógu stórt skref verið stigið, verið að stíga þriðja skrefið í vaxtalækkunum frá því að þessi ríkisstjórn tók við og það er meira en margur stjórnmálaflokkurinn í þessum sal getur státað af. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um ró í salnum.)