137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skýrslur nefnda um háskólamál.

[11:15]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu.

Íslenska þjóðin er svo lánsöm í þessum þrengingum að hún býr við hátt menntunarstig. Margir sem nú hafa misst vinnuna eiga sem betur fer kost á því að mennta sig enn frekar og koma þannig tvíefldir til leiks þegar betur árar. Háskólarnir okkar gegna lykilhlutverki í þessu sambandi. Ekki aðeins eru þeir skjól í kreppunni heldur eru þeir líka okkar langsterkasta tæki til framfara og nýsköpunar, það hafa þeir sýnt og sannað á undanförnum árum.

Það er eitt stórt atriði í skýrslunum sem mig langar til að vekja athygli á og það er sú hugmynd að sameina þá háskóla sem við eigum í dag. Helsti styrkur háskólanna, og þá sérstaklega þeirra sem eru úti á landi, er fyrst og fremst sjálfstæði þeirra. Þessir skólar hafa náð að vaxa og dafna þrátt fyrir takmörkuð fjárframlög en einstakur vilji stjórnenda þeirra, kennara og nemenda hefur gert það að verkum að framþróun þeirra hefur verið með hreinum ólíkindum. Sjálfstæðið er einmitt það sem verður að vernda, án þess hefði frumkvæðið og drifkrafturinn til að þróa eitthvað nýtt aldrei komið til.

Skýrsla nefndar sérfræðinganna sem sett var á laggirnar af fyrrum menntamálaráðherra og niðurstöður sérfræðinganna valda í raun miklum vonbrigðum. Það er með hreinum ólíkindum að landsbyggðin skuli ekki hafa átt fulltrúa í nefndinni. Þá vekur það líka furðu að nefnd erlendu sérfræðinganna skuli varla hafa stigið fæti út fyrir höfuðborgarsvæðið við gerð skýrslu sinnar og að fulltrúar Háskóla Íslands hafi verið kallaðir til sérstaklega til þess að ræða um málefni þeirra. Þá er sú niðurstaða að skuli fækka háskólunum í tvo afar undarleg í ljósi þess að um leið er lagt til að stofnaðir verði tveir nýir háskólar.

Er það vilji þjóðarinnar að hér verði eingöngu starfræktir (Forseti hringir.) háskólar út frá Reykjavík? Ég segi nei og legg því til að við stingum þessari skýrslu undir stól í augnablikinu en (Forseti hringir.) verndum sjálfstæði háskólanna með ráðum og dáð.