137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skýrslur nefnda um háskólamál.

[11:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Lesa má úr þeim skýrslum sem hér eru til umræðu þau skilaboð að Íslendingar eigi að standa vörð um menntun grunnskóla- og framhaldsskólanemenda, greiða leiðir milli háskóla, rannsakenda og atvinnulífs og síðast en ekki síst að hér sé þörf á einbeittri stefnu og forgangsröðun á háskólastiginu. Þessi meginatriði tel ég vera mikilvæg og áríðandi að við vinnum enn frekar að útfærslu þeirra.

Ekki má draga úr grunn- og framhaldsskólamenntun vegna þess að með henni sköpum við framtíð fyrir komandi kynslóðir. Við eigum að nýta vel þá fjármuni sem við höfum og hagræða þar sem hægt er en missa ekki sjónar á því að samkeppnishæfni þjóðarinnar til framtíðar byggir á góðri menntun. Skapa þarf íslenskum ungmennum námsumhverfi sem gerir þeim kleift að keppa við jafnaldra sína um heim allan.

Í báðum skýrslunum er lögð sérstök áhersla á nýsköpun og samvinnu háskóla, rannsakenda og atvinnulífs. Það hlýtur að vera áhyggjuefni og um leið brýnt úrlausnarefni sú staðreynd að rannsóknir okkar virtu vísindamanna virðast ekki ná til atvinnulífsins hér á landi og ná ekki að verða sú öfluga hvatning og stoð nýsköpunar með sama hætti og vísindarannsóknir í nágrannalöndum okkar. Miklir hagsmunir og tækifæri eru fólgin í því að finna góða lausn á þessum málum sem allra fyrst.

Vöxtur háskólastigsins hefur verið mikill á undanförnum árum hér á landi og svipuð þróun hefur átt sér stað á Norðurlöndum og reyndar í Evrópu allri. Sameining háskóla og aukin samvinna á milli þeirra á sér stað um þessar mundir í nágrannalöndum okkar. Með því að hagræða í stjórnsýslu og á rannsóknarsviði háskólanna og stuðla að aukinni samvinnu munum við ekki aðeins fara betur með fjármuni heldur einnig styrkja háskólastigið í landinu ef rétt er á haldið. Varðveita þarf þá grósku og þann margbreytileika sem býr í fjölbreyttu námsframboði háskólastigsins og skerða ekki aðgengi að góðri menntun frá því sem nú er. En samhliða þarf að taka raunsæ skref til hagræðingar og nýta kosti samvinnu og sérhæfingar eins og gert var með farsælum hætti með sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands.

Ég tel að stór þáttur í endurreisn íslensks samfélags liggi í áherslu okkar á menntun og vísindi og hvernig okkur tekst að samhæfa krafta sem þar búa.