137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skýrslur nefnda um háskólamál.

[11:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu nefnda um háskólamál. Athyglin hefur fyrst og fremst beinst að tillögu nefndanna um fækkun háskóla, jafnvel niður í tvo, og þessar tillögur hafa valdið ugg í brjósti landsbyggðarmanna, enda reynslan af sameiningu stofnana með starfsemi á landsbyggðinni við stofnanir á höfuðborgarsvæðinu ekki góð og hefur oft og tíðum þýtt minni þjónustu og samdrátt á landsbyggðinni.

Því kemur það svo sem ekkert á óvart að við framsóknarmenn vörum sterklega við því að sameina háskóla landsins í tvo háskóla og þá sérstaklega gegn vilja háskólasamfélagsins og íbúa í viðkomandi landshlutum. Stefna Framsóknarflokksins er sú að við þurfum að leggja aukna áherslu á háskólakennslu á landsbyggðinni þar sem sérstaða héraðanna verði nýtt til sérgreiningar.

Hins vegar verð ég að segja að það er ýmislegt gott í tillögum nefndanna. Mikil áhersla er á aukna samvinnu á milli skólanna og sem mikil samvinnumanneskja get ég ekki annað en fagnað þeim hugmyndum. Má þar nefna sameiginlega doktorsnámsskóla, sameiginlegar námsbrautir, aukinn hreyfanleika nemenda og kennara á milli skóla og að samstarfsnefnd háskólastigsins fái aukið og formlegra hlutverk til að efla samstarf háskólanna. Samvinna gæti einnig komið í formi sameiginlegrar innritunar, sameiginlegra kynninga erlendis og sameiginlegrar alþjóðaskrifstofu fyrir nemendur. Ég sjálf mundi einnig vilja sjá hugmyndir um aukið vægi nemenda og kennara í ákvörðunum innan skólanna og hlutverk háskólanna i samfélaginu svo sem í formi samfélagslegra verkefna og þjónustu í anda samvinnustefnunnar. Mætti þannig skoða frumkvæði skólamálaráðherrans Eds Balls í Bretlandi varðandi þetta mál.

Mér finnast það einnig mjög áhugaverðar hugmyndir að háskólar verði sjálfseignarstofnanir og krefst þess hreinlega að reiknilíkanið verði endurskoðað og samningum verði beitt til að bæta samstarf og verkaskiptingu háskólanna. Því hvet ég eindregið til að við vinnum áfram með þessar hugmyndir og býð mig fram innan menntamálanefndar til að vinna að þessum hugmyndum. Ég fagna jafnframt frumkvæði fyrrverandi ráðherra, hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, um að setja á stofn tvær nefndir innlendra og erlendra sérfræðinga.