137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skýrslur nefnda um háskólamál.

[11:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin og bíð eftir svari hennar varðandi sjálfseignarstofnanirnar. Einnig vil ég þakka fyrir mjög málefnalega umræðu sem hefur átt sér stað hér á þingi um þetta mikilvæga mál, um hvernig við ætlum að halda áfram þróun háskóla og rannsóknarmála.

Ég fagna því sérstaklega að það er víðtæk samstaða í þinginu um að standa sérstaklega vörð um þá vaxtarsprota og frekar að fjölga þeim á næstu árum því að við munum komast fyrr, eins og hæstv. ráðherra sagði réttilega, út úr kreppunni ef stoðkerfi okkar er öflugt og sterkt.

Aðeins varðandi grunnskólann. Ég er sammála því sem hæstv. ráðherra sagði, það eru blikur á lofti varðandi ákveðna þætti. Þess vegna held ég að þær breytingar sem allt þingið hefur staðið að á umliðnum missirum, breytingar á grunnskólalöggjöfinni og heildstæð vinna þar en ekki síður efling kennaramenntunar og sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands, gefi okkur tækifæri til þess að hlúa að þeim málefnum og þeim störfum innan grunnskólans sem við eigum efla. Varðar það sérstaklega lesskilninginn, stærðfræðikunnáttu o.s.frv. Ég tel því að þær breytingar sem við höfum sameiginlega staðið að stuðli að því að við munum á næstu árum verða sterkari á þeim sviðum.

Varðandi Vísinda- og tækniráð er það mikilvægur vettvangur sem við verðum að þróa. Þar er ábyrgð hæstv. menntamálaráðherra mikil. Múrarnir eru að molna, múrarnir milli rannsóknarstofnana, háskólasamfélagsins og atvinnulífsins verða að hverfa. Sjóðirnir verða að vera virkari hvort sem það er AVS eða aðrir rannsóknarsjóðir. Það verður að vera meiri samvinna innan sjóðakerfisins því að „dýnamíkin“ getur orðið enn meiri í ljósi þeirra fjármuna og þeirrar þekkingar sem þar eru innan borðs. Ég hvet því ráðherra til dáða á þeim vettvangi.

Ég fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra gat um að mikilvægt væri að varðveita hér fjölbreytni og samkeppni. Mér finnst það vera annar tónn en við höfum heyrt frá Vinstri grænum og ríkisstjórninni hvað varðar að gæta (Forseti hringir.) að því sem við stöndum vel í og er ég þar að hugsa um sjávarútveginn. Ég er fegin að það er augljóst að menntamálaráðherra ætlar ekki að fara neina fyrningarleið í menntamálum.