137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[11:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar þingskjalið sem hér liggur fyrir er lesið blasir við okkur að náttúruverndaráætlun er af þeirri gerð að ætla má að verkefni hennar falli mjög vel að verkefnasviði náttúrustofanna í landinu. Ég hreyfði þessu máli þegar fyrri náttúruverndaráætlun var hleypt af stað í þinginu en með litlum árangri. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki væri eðlilegt að ætla náttúrustofunum í landinu meira hlutverk varðandi framkvæmd náttúruverndaráætlunar og raunar undirbúning hennar líka.

Þegar farið er yfir þennan texta sjáum við að bæði Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun er ætlað mjög mikið hlutverk en hins vegar er mjög fátækleg umfjöllun um stöðu og hlutverk náttúrustofanna. Þegar lögin um náttúrustofur eru lesin kemur hins vegar glögglega fram að þeim er ætlað mikið hlutverk almennt talað. Ég sakna þess vegna mjög að sjá ekki meiri umfjöllun um hlutverk náttúrustofanna í þessu sambandi og vil því spyrja hæstv. ráðherra hvert hennar sjónarmið sé varðandi (Forseti hringir.) það að efla hlutverk náttúrustofanna við framkvæmd, undirbúning og eftirlit á náttúruverndaráætlun.