137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[11:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er þá ljóst að hæstv. ráðherra veit ekki hvernig samráðið hefur verið eða hvernig því hefur verið háttað. Það sem vekur athygli mína líka varðandi þessa þingsályktunartillögu er að það voru gerðar ýmsar athugasemdir og ábendingar hjá umhverfisnefnd á síðasta þingi og lagðar til ýmsar breytingar á náttúruverndaráætluninni en þær breytingar virðast ekki hafa verið teknar inn í þá tillögu sem lögð er fram núna. Hvernig stendur á því? Vegna þess að oft er tekið tillit til athugasemda sem hafa komið fram á fyrri þingum til að auðvelda vinnuna hjá næstu nefnd.

Ég hefði líka áhuga á að heyra frá ráðherra hvert peningarnir sem hún nefndi fara. Í hvað á að nýta þessa fjármuni? Og líka hvort verið geti að einhliða ákvörðun ráðherrans um að hafna skipulagi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi geti ekki hugsanlega haft áhrif á það svokallaða samráð sem á eftir að fara fram.