137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[11:52]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Enn þakka ég þingmanninum áhuga sinn á málinu. Tekin var ákvörðun um það í umhverfisráðuneytinu að afloknum kosningum að leggja náttúruverndaráætlun fram óbreytta þar sem talið var að nýtt þing, fjöldi nýrra þingmanna ætti að eiga aðkomu að framkvæmdinni og umfjölluninni í samráði og samstarfi við landeigendur og hagsmunaaðila. Það var sá háttur sem var valið að hafa. En ég geri mér grein fyrir því að ýmsar athugasemdir sem komu fram á fyrri stigum málsins hljóta að verða teknar inn í umræðuna eins og henni var háttað á síðasta kjörtímabili, þ.e. fyrir kosningar. Og ég vænti þess að þær athugasemdir fái sína leið inn í þá umræðu.