137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[11:55]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir andsvar sitt. Raunar vænti ég mikils af samstarfi við hana í þessum krefjandi málaflokki umhverfismála og vænti þess að þingið og við öll munum njóta góðs af hennar miklu reynslu í þessum málaflokki. Ég tek undir þær áhyggjur sem hér eru nefndar og verð að segja eins og er að það kemur manni spánskt fyrir sjónir þegar áætlunin landar ekki fleiri svæðum en raun ber vitni. Mér finnst það verulegt áhyggjuefni og gefa tilefni til þess að hv. umhverfisnefnd skoði sérstaklega framkvæmd og eftirfylgd áætlunarinnar, af því að það hlýtur að vera það sem hefur á einhvern hátt orkað tvímælis eða verið ferill sem ekki reyndist sá besti í þessu ferli. Ég vænti þess að við munum í samstarfi ráðuneytis og þings komast að góðri og farsælli niðurstöðu í því.