137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[12:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun fyrir árin 2009–2013. Hér er lagt til að þrettán mismunandi svæði verði vernduð og er jafnframt talað um nokkrar tegundir af plöntum og dýrum. Mér skilst að það sé í annað sinn sem þessi tillaga er lögð fram. Ég sat í umhverfisnefnd á síðasta þingi sem fjallaði einmitt um þetta mál og skilaði af sér nefndaráliti um náttúruverndaráætlunina. Og eins og komið hefur fram í orðum hæstv. ráðherra og mínum virðist þetta vera nákvæmlega sama tillagan. Henni hefur ekki verið breytt eða hún uppfærð nema að litlu leyti. Þá er kannski alveg ástæða til þess að kíkja á þær ábendingar sem fram komu í nefndaráliti frá síðustu umhverfisnefndar. Með leyfi forseta:

„Tilgangur heildstæðrar náttúruverndaráætlunar er að koma upp neti friðlýstra svæða og skal áætlunin taka til helstu tegunda vistgerða og vistkerfa, svo og jarðmyndana hér á landi, m.a. með tilliti til menningarlegrar og sögulegrar arfleifðar, nauðsynjar á endurheimt vistgerða, nýtingar mannsins á náttúrunni og ósnortinna víðerna, sbr. 66. gr. laganna.“

Það sem ég vil einna helst ræða í máli mínu er að þegar við fórum að vinna að þessari tillögu má segja að síminn hafi byrjað að hringja og tölvupóstar að berast. Það sem kom fram í orðum þeirra sem voru hinum megin á línunni var að nánast ekkert samráð hefði verið haft við viðkomandi. Þetta voru fulltrúar sveitarfélaga og landeigendur. Þeir sögðust hafa haft spurnir af þessum fyrirætlunum en ekki hefði verið haft beint samband við þá. Í sumum tillögunum hefði jafnvel verið gengið mun lengra en fyrri samráðsferlar gerðu ráð fyrir þar sem viðkomandi sveitarfélög og fulltrúar umhverfisráðuneytisins hefðu komið saman og orðið sammála um ákveðnar tillögur. Síðan kemur tillagan til þingsályktunar og þar jafnvel er gengið enn lengra en menn voru búnir að koma sér saman um.

Af því tilefni vil ég gjarnan vitna í umsögn sem barst frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, mér finnst það mjög góð umsögn frá þeim, þar sem þeir benda einmitt á þá þætti sem varða samráðsferli og vinnu við undirbúning tillögunnar. Þingsályktunartillagan er nánast samhljóða þeirri sem lögð var fram á síðasta þingi. Hún er unnin af starfshópi sem ráðherra skipaði árið 2007 til að vinna að undirbúningi nýrrar náttúruverndaráætlunar fyrir árin 2009–2013. Hér segir, með leyfi forseta:

„Ekki virðast aðrir hafa átt aðkomu að því starfi en starfsmenn umhverfisráðuneytisins og stofnana sem undir það heyra en undirbúningur áætlunarinnar var kynntur á umhverfisþingi í október árið 2007. Formlegt samráð um efni áætlunarinnar virðist að öðru leyti hafa verið takmarkað og er óhjákvæmilegt að gera athugasemd við það að áætlunin hafi ekki farið í almennt kynningar- og samráðsferli eins og kynnt var á umhverfisþingi.“

Mér finnst þetta sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að eitt af fyrstu embættisverkum hæstv. umhverfisráðherra þegar hún tók við stólnum var einmitt að gera athugasemdir og taka einhliða ákvörðun um að hafna samþykkt á skipulagsbreytingum hjá ákveðnu sveitarfélagi, sem er einmitt hluti af þessari þingsályktun, á grundvelli þess að hún taldi að þarna hefði ekki farið fram nægilega góð kynning á ferlinu þrátt fyrir að undirstofnanir hennar hefðu ekki gert athugasemdir við það kynningarferli. Kom jafnvel fram í orðum hennar að þetta væri venjan og hefði verið unnið á þennan máta í mörgum öðrum sambærilegum skipulagsbreytingum. Ég mundi því gjarnan vilja fá að heyra frekar frá ráðherranum hvort hún telji að hún sé ekki alveg samkvæm sjálfri sér gagnvart því að gera ákveðnar kröfur á sveitarfélögin en gera síðan ekki sambærilegar kröfur til umhverfisráðuneytisins og undirstofnana þess varðandi kynningar á samráðsferli.

Síðan kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd gildandi náttúruverndaráætlunar. Það kom fram í orðum hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar og hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að gengið hafi mjög erfiðlega að ljúka við friðun svæðanna sem þegar er búið að samþykkja að friðlýsa samkvæmt náttúruverndaráætlun. Síðan er bent á að nokkur svæði jafnvel utan náttúruverndaráætlunar hafi verið friðuð á undaförnum árum, oft að frumkvæði sveitarstjórna. Með leyfi forseta:

„Þessi niðurstaða hlýtur að vekja spurningar um hvort náttúruverndaráætlun endurspegli raunverulegar áherslur stjórnvalda í náttúruvernd á hverjum tíma. Einnig má spyrja hvort tillögur um friðlýsingar í áætluninni hafi verið of margar miðað við það fjármagn og mannafla sem stjórnvöld hafa til ráðstöfunar á sviði náttúruverndar.“

Í tillögunni er einmitt lagt til að stækka friðlandið í Þjórsárverum og eina athugasemdin sem ég fékk við þá tillögugerð var að ekki hefði einu sinni fengist fjármagn í að setja upp skilti þannig að ferðamenn vissu að þeir væru komnir inn í friðlandið. Það er því greinilegt að fjármagn hefur ekki fylgt þessum áætlunum ríkisvaldsins.

Síðan bendir sambandið á nauðsyn þess að formlegt samráð sé haft við sveitarstjórnir við gerð náttúruverndaráætlunar í ljósi þess að sveitarfélög fara með skipulagsvald og bera ábyrgð á gerð svæðis og aðalskipulagsáætlana. Hér segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort þingsályktunartillagan muni kalla á endurskoðun skipulagsáætlana sveitarfélaga með tilheyrandi kostnaði fyrir sveitarfélögin.“

Þetta finnst mér vera algjörlega óþolandi, það ætti að vera eitthvað sem hæstv. umhverfisráðherra ætti að þekkja vel til, þ.e. að sífellt er verið að hlutast til um verkefni sveitarfélaga, setja rammalöggjöf og reglugerðir án þess að skoða hvers konar kostnað þetta hefur í för fyrir sveitarfélögin. Það er náttúrlega ýmislegt sem fellur undir umhverfisráðuneytið sem hefur beint með þetta samstarf og þennan kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin að gera.

Síðan er í umsögninni talað um forgangsröðun fjármuna og verkefna. Þar er nefnt mikilvægi þess að áfram verði unnið að friðlýsingu þeirra svæða sem þegar er búið að leggja til að verði friðuð og síðan friðlýsingu þrettán nýrra landsvæða. Sambandið telur enga ástæðu til að efast um sérstöðu þeirra svæða sem um ræðir enda eru það sérfræðingarnir sem hafa lagt til að þessi svæði verði friðuð. Hins vegar segja þeir, með leyfi forseta:

„Ástæða virðist þó til að benda á að með fjölgun friðlýstra landsvæða hljóta þeir takmörkuðu fjármunir sem Umhverfisstofnun hefur til ráðstöfunar til náttúruverndar að dreifast á enn fleiri staði en áður. Á sama tíma blasir við að margar helstu náttúruperlur landsins búa þegar við of mikið álag af völdum ferðamanna. Þar má nefna staði á borð við Geysissvæðið, Dyrhólaey og Dimmuborgir.“

Þeir benda á að hugsanlegt væri — ég tel reyndar að það sé ekki bara hugsanlegt, ég get hreinlega fullyrt að betri árangur ætti að nást ef unnið yrði að verndun færri landsvæða í einu á hverjum tíma og að tillögurnar væru unnar í samráði við viðkomandi sveitarfélög.

Sem dæmi um umsögn sem við fengum, frá sex af þeim þrettán svæðum, má nefna bréf sem okkur barst frá landeiganda Egilsstaðaskógar og Egilsstaðakletta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ég hef haft spurnir af því að fyrir þinginu liggi tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009–2013. Þar mun verða gert ráð fyrir að friða Egilsstaðaskóg og Egilsstaðakletta sem eru í landi mínu, Egilsstöðum. Til að byrja með vil ég lýsa furðu minni á að um svona lagað sé fjallað án þess að það hafi á nokkurn hátt verið haft samband við landeiganda og hvorki hann né skipulagsyfirvöld sveitarfélagsins eru meðal þeirra sem leitað er umsagna hjá varðandi þetta mál. Stórfurðuleg vinnubrögð. Engu að síður leyfi ég mér að senda hér inn athugasemd. Ég mótmæli alfarið þessum hugmyndum um friðlýsingu á landi mínu sem væri um leið ekkert annað en eignaupptaka á mínum eigum.“

Það var m.a. ástæðan fyrir því að ég spurði um hver ástæðan væri fyrir því að ekki voru gerðar neinar breytingar á þessari tillögu til þingsályktunar. Það er algjörlega ljóst að það mun ekki ganga að friðlýsa einmitt þetta svæði vegna þess að landeigandinn er algjörlega á móti því þannig að við hljótum að spyrja okkur: Ef það er vilji umhverfisráðuneytisins og hugsanlega þingsins í framhaldinu að friðlýsa þess konar svæði, erum við þá farin að tala um eignaupptöku? Síðan má áfram telja, sex eða sjö aðilar af þrettán komu með (Forseti hringir.) sams konar athugasemdir.