137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[12:33]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef verið fjarverandi frá þinginu síðustu viku og er enn þá ný í þessu nýja hlutverki, en ég verð að segja að það er mér sérstakt gleðiefni að detta inn í einmitt þetta mál núna þegar ég kem til baka, náttúruverndaráætlun. Ég vil fá að óska hæstv. umhverfisráðherra innilega til hamingju með þetta, nýja umhverfisráðherranum okkar. Og líka vil ég nefna, eins og komið hefur fram, að það er dálítið sérstakt að hér hafa tekið til máls þrír fyrrverandi umhverfisráðherrar sem við búum að og að formaður umhverfisnefndar er einmitt fyrrverandi umhverfisráðherra sem kom einnig að gerð þessarar áætlunar. Ég hef, ólíkt hv. þm. Eygló Harðardóttur, ekki setið áður í umhverfisnefnd eða nokkurri nefnd þannig að ég er ný þar og ég treysti því að þetta mál verði mjög vel unnið og vandað til verka í nefndinni áfram.

Það er svolítið um það núna í hruninu og þeim erfiðleikum sem nú steðja að Íslandi að enn minna sé gert úr mikilvægi náttúruverndar og umhverfismála en jafnvel hefur verið gert undanfarin ár. Ég var spurð fyrir einhverjum dögum síðan af hverju þingmenn væru alltaf að þvæla um smámál sem kæmu hruninu ekkert við og einhver tiltók einmitt umhverfismál. Ég verð að segja að það er einmitt núna, á þessum tíma hrunsins og uppgjörsins og þeirrar stefnu sem við viljum móta til framtíðar sem við verðum að stokka upp gömlu gildin og byggja á styrkleikum Íslands. En einn meginstyrkleiki okkar, ótvíræður, sem er ekki okkur að þakka eða neinum sem hér hefur fæðst heldur þeirri gjöf sem við fáum sem Íslendingar að fæðast í þessu stórkostlega landi, sem t.d. vinir okkar Danir eða Hollendingar og ýmsir fleiri fá ekki að njóta með þeim hætti sem við gerum með því að fæðast í þessu landi. Þetta er styrkleiki sem núna verður að byggja á.

Ég átti fund í gær með ýmsum aðilum úr ferðaþjónustunni sem sögðu að nú væri tækifæri og svolítið sérstakt tækifæri einmitt núna í hruninu til að byggja upp ímynd Íslands og hefja nýja markaðssókn vegna þess að okkur sem höfum verið hér í hruninu hefur vaxið í augum að heimurinn talaði svo hræðilega illa um Ísland, að við værum einhverjir svartir sökudólgar. Það er ekki þannig. Flestir vita nánast ekkert um Ísland en það sem þeir vita er að hér er stórkostlega náttúra og það er fyrst og fremst þess vegna — fyrir utan að vita náttúrlega líka um menningu og sögu og ýmislegt annað — sem fólk kemur hingað til lands og veit af okkur.

Framtíð okkar byggir á því núna að við blásum til sóknar, séum ekki bara í vörn heldur blásum til sóknar í grænu málunum og stefnum að því af metnaði að vera í forustu í umhverfisvernd, náttúruvernd og umhverfismálum, setjum okkur mjög metnaðarfull markmið. Slík markmið, eins og sagan sýnir okkur, byggja ekki á góðæri eða gróða eða hversu miklir peningar eru í umferð í samfélaginu vegna þess að eins og komið hefur fram hefur ekki, jafnvel þegar voru svokallaðir góðæristímar, tekist að friðlýsa eða gera þá hluti sem hefðum átt að vera búin að gera hvað varðar náttúruvernd. Við þurfum líka að taka mjög til umfjöllunar stöðu náttúruverndaráætlunar yfir höfuð — hér hafa verið nefndar ýmsar aðrar áætlanir og önnur plön, rammaáætlun á mismunandi sviðum — hvaða stöðu náttúruverndaráætlun hefur gagnvart öðrum sjónarmiðum sem koma fram og vilja ganga á náttúruna gegndarlaust að mínu mati.

Ég fagna því auðvitað sérstaklega að hæstv. ráðherra segist munu beita sér fyrir mjög rækilegri og góðri upplýsingagjöf til Alþingis og samráði við mismunandi hagsmunaaðila og þá sem málið varðar. Hún sagði réttilega að þetta væri þátttökuverkefni, náttúruvernd væri lýðræðisverkefni. Það er mjög mikilvæg hugsun af því að sjálfbær þróun, ef við ætlum á byggja á því sem við verðum að gera, byggir nákvæmlega á lýðræðinu, lýðræðislegum vinnubrögðum. Og það verð ég að segja af þekkingu minni eða kynnum af hæstv. umhverfisráðherra Svandísi Svavarsdóttur að þar treysti ég henni allra best til að standa fyrir öflugu og nánu samráði.

Hér var fjallað aðeins um framkvæmd og eftirfylgni og það vekur auðvitað upp mjög alvarlegar spurningar um hvers vegna þetta gangi svona hægt og gangi allt of hægt. Er svarið við því, eins og einhverjir munu kannski segja, að fækka þeim stöðum sem við viljum passa upp á? Ég segi nei, það er ekki svarið. Við eigum að vera eins metnaðarfull og við mögulega getum í þessum efnum en einmitt ganga í þá vinnu og það verk — auðvitað fjallar þetta líka um peninga en fyrst og fremst um ásetning og einbeittan vilja — að tryggja að ferlið sé ekki svona hægfara og þessi stefna sé framkvæmd af meiri hraða og skilvirkni.

Eins og hér hefur komið fram eru ýmis nýmæli í þessari áætlun og var talað um að í fyrsta sinn verði nú friðaðar dýrategundir og ýmsar plöntutegundir og ýmislegt annað sem er afskaplega gott. Mig langar að fá að nefna eitt sérstaklega sem er mér mikið hjartans mál og það eru Þjórsárverin. Það er svo löngu tímabært að stækka Þjórsárver og hið friðlýsta svæði þeirra. Í raun má segja að saga Þjórsárvera sé svolítið hjarta í sögu náttúruverndar á Íslandi og svo margt sem við megum læra af sögu Þjórsárvera, hvernig hagsmunir hafa þar rekist á og einmitt offors á ýmsan hátt í stað samráðs. Þetta er saga hugrekkis og kjarks og einmitt saga baráttu heimamanna, fyrst og fremst hugrakkra heimamanna sem sumir hverjir lögðu ævistarf sitt í að passa upp á þetta magnaða svæði sem á auðvitað bara heima á heimsminjaskrá UNESCO og ég leyfi mér að segja allir alþjóðlegir líffræðingar og náttúrufræðingar sem til þekkja vita og skilja að er einstakt og okkur ber skylda til að varðveita.

Ég læt þessu lokið að sinni en vil bara ítreka að ég hlakka til starfa í umhverfisnefnd, til að taka þetta mál fyrir og halda áfram þeirri vinnu sem hér hefur verið lögð fram. Ég ítreka enn og aftur að nú er ekki tíminn til að fara í vörn heldur að leggjast í sókn. Vextir hækka og lækka — því miður lækka þeir ekki mikið þessa dagana — verðbólga fer upp og hún fer niður og ýmislegt gerist í lífi okkar og samfélagi, það er allt breytingum háð og í valdi okkar mannanna en þegar náttúran er farin kemur hún aldrei aftur. Blásum því til sóknar í þessum málum. Ég hlakka til að vinna bæði með þeim þingmönnum sem hér eru og í umhverfisnefnd og hæstv. umhverfisráðherra.