137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[12:45]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi skoðanaskipti í andsvörum milli hv. nefndarmanna í umhverfisnefnd gefa góð fyrirheit um starfið á komandi þingi, (Gripið fram í: Og hlýjuna á milli.) og hlýjuna á milli og það er bara gott. Við þurfum ekki alltaf að skiptast á orðum til að skilja hvert annað og það er hið besta mál.

Það kom fram í máli hv. þm. Guðfríðar Lilju áðan að við ættum í því áferð sem er núna að leggja áherslu á og kappkosta að hin grænu gildi yrðu hafin til vegs og virðingar og við Íslendingar ættum að keppa að því að verða forustuþjóð á sviði umhverfismála. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekkert endilega að keppa að því í því árferði sem nú er, við eigum alltaf að vera í því hlutverki. Ég tel raunar og er þeirrar skoðunar að Íslendingar hafi í áranna og aldanna rás reynt að vera í eðli sínu mjög harðir umhverfissinnar, öðruvísi hafi þeir ekki komist af í þessu landi. Sú þjóð sem hér hefur búið í rúm þúsund ár hefði ekki komist af öðruvísi en að lifa með einhverjum hætti í sátt við náttúru landsins. Hún er forsenda þess að við höfum komist af og gátum lifað sem þjóð í þessu harðbýla landi norður við ysta haf. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, af því að hún hafði þau orð að við ættum að keppa að því að komast í forustu þjóða heims á sviði umhverfismála: Hvaða þjóðir í veröldinni standa Íslendingum framar í þeim efnum?