137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[12:47]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir það þegar talað var um hlýju milli umhverfisnefndarmanna, það er góð byrjun. Ég vil líka taka undir með því sem bæði hv. þm. Magnús Orri Schram og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sögðu um að menn ættu að reyna að fara upp úr hjólförunum og skotgröfunum og sameinast um það sem við getum sameinast um. Það er gríðarlega mikilvægt einmitt líka fyrir náttúruvernd í landinu og áframhald okkar í vonandi meiri framsækni í umhverfismálum. Við verðum líka að viðurkenna og bera virðingu fyrir mjög mismunandi áherslum okkar, mismunandi sýn og mismunandi pólitískri afstöðu, m.a. til stóriðju, sem hefur augljóslega um leið mikið með náttúruvernd að gera. Verkefnið er auðvitað að sameinast um það sem við getum sameinast um sem er þó nokkuð og mun meira en við höfum kannski látið gerast undanfarin ár.

Varðandi spurningu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, þá varðar það í mínum huga að vera framsækinn í umhverfismálum alveg gríðarlega margt. Það varðar m.a. hversu umhverfisvæn við erum í hugsun og háttum, hvernig við urðum rusl og sorp og hvernig við göngum fram í náttúrunni, það varðar svo margt. Við erum alltaf að segja hvernig við erum fremst í þessum málum, við erum það ekki en við getum auðvitað orðið það, m.a. vegna hinna stórkostlegu endurnýjanlegu orkugjafa sem við eigum að nýta fyrst og fremst í umhverfisvæna uppbyggingu, ekki í mengandi stóriðju svo ég taki það aftur fram.

Ef ég á að nefna land get ég nefnt t.d. Þýskaland. Ég held að Þýskaland standi okkur framar á ýmsum sviðum umhverfismála, umhverfishugsunar, umhverfishátta og -hegðunar, þar er meiri og öflugri umræða um umhverfismál og í ýmsum löndum í kringum okkur eru umhverfismálin, t.d. loftslagsbreytingar, orðin stóra málið. (Forseti hringir.) Hérna erum við enn þá pínulítið að vinna okkur upp í það.