137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[12:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get engan veginn tekið undir það að maður sem býr í 101, hv. þm. Atli Gíslason, sé heimamaður á því viðkomandi svæði. Hins vegar verð ég líka að segja að ég tel að það séu ákveðin vonbrigði varðandi þá málefnaáherslu sem hér kemur frá hæstv. ráðherra og hv. þingmaður tekur undir, sem er bara enn í sömu skotgröfunum, að þetta séu aðalmálin í dag. Ég hefði svo gjarnan viljað sjá eitthvað nýtt og ferskt koma frá einmitt Vinstri grænum varðandi hluti sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, um það hvernig við getum gert fiskiskipaflotann okkar vistvænni, hvernig við getum betur flokkað sorp og hvernig við getum stuðlað nýrri atvinnusköpun. Og það er eitthvað sem t.d. fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefur lagt mikla áherslu á, hvernig við gætum t.d. sparað gjaldeyri með því að rafmagnsvæða bílaflotann okkar. Ég tel það mikil vonbrigði ef þetta eru áherslurnar hjá nýjum ráðherra.