137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

lokafjárlög 2007.

57. mál
[13:37]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að fjárlaganefndin ætti að vera þessu frumvarpi til lokafjárlaga fyrir árið 2007 allvel kunn við lok yfirferðar ef við erum að fara — það er ekki ef, því við erum að fá þetta frumvarp aftur inn til nefndar vegna þess að ekki tókst að ljúka því á síðasta þingi.

Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs við umræðuna er kannski líka sú að vekja athygli á því með hvaða hætti upplýsingastreymi til Alþingis varðandi fjárlög og uppgjör er háttað. Við erum núna í þeirri stöðu að ræða það að ljúka yfirferð á frumvarpi til lokafjárlaga fyrir árið 2007 þegar langt er liðið á árið 2009. Með leyfi forseta, ætla ég að leyfa mér að vitna til nefndarálits sem lagt var fram af hálfu hv. fjárlaganefndar á síðasta þingi með því frumvarpi sem verið er að endurflytja núna. Á árinu 1997 var mörkuð skýr stefna um efni fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga, þ.e. allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir áttu að koma fram í fjárlögum, í fjáraukalögunum hefði átt að taka inn og ætti að taka inn fyrst og fremst atriði sem eingöngu voru ófrávíkjanleg og ófyrirséð útgjöld, en aðrar fjárhagsráðstafanir ættu að koma fram fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár eða þá í afgreiðslu lokafjárlaga eins og hér liggja fyrir.

Með sama hætti vil ég nefna að í því nefndaráliti var ítrekað það atriði að fjárstjórnarvaldið er í höndum Alþingis, samanber 41. og 42. gr. stjórnarskrárinnar. Í 41. gr. kemur fram að það má ekkert gjald greiða úr ríkissjóði nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Samkvæmt þessum lagafyrirmælum ber að leita heimilda til greiðslna úr ríkissjóði, eftirgjafa á kröfum og til hvers konar samninga um fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkisstofnanir. Þessar ákvarðanir eru teknar á fjárlögum eða eftir atvikum í fjáraukalögum eins og áður segir.

Hv. fjárlaganefnd sat á fundi í morgun þar sem farið var yfir með heilbrigðisráðuneytinu stöðu og framkvæmd fjárlaga fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins. Hv. fjárlaganefnd fékk samantekt frá fjármálaráðuneytinu, dagsetta 20. maí, þar sem gerð var grein fyrir stöðu þessara mála í öllum ríkisstofnunum. Fram kemur í þessu yfirliti sem hér um ræðir að það eru yfir 110 fjárlagaliðir með meira en 4% umframkeyrslu úr fjárheimildum, þar af 83 af þessum 110 sem fara meira en 10% fram úr fjárheimildum.

Þegar við göngum eftir þessu kemur fram í erindi fjármálaráðuneytisins að þeir hafi sent viðkomandi ráðuneytum bréf þar sem er óskað eftir skýringum forstöðumanna á því hvernig á þessu standi og leitað eftir tillögum þeirra um úrbætur og farið er fram á að þessu séu gerð skil eigi síðar en 3. júní, þ.e. í gær. Heilbrigðisráðuneytið var ekki búið að gera skil til fjármálaráðuneytisins. Í þessari stöðu er fjárveitingavaldið, í þessari stöðu er Alþingi gagnvart upplýsingum dagsins í dag. Hér erum við að ræða uppgjör fyrir árið 2007 og núna þegar fer að nálgast mitt ár er Alþingi ekki farið að sjá neinar útlínur af útkomu ársins 2008. Einu tölurnar um stöðu mála í dag sem við höfum eru bráðabirgðauppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuðina. Upplýsingagjöfin til Alþingis er að mínu mati fyrir neðan allar hellur og þessu verður að kippa í liðinn.

Í ljósi þeirra umræðna sem um þessi mál hafa átt sér stað á undanförnum mörgum árum — ég er ekki að beina skotum að hæstv. fjármálaráðherra hér og nú, þetta er verklag sem hefur viðgengist á mörgum, mörgum undanförnum árum og ber að kippa í liðinni, og ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir úrbótum í því — vil ég nefna í þessu sambandi að fjárlaganefndin hefur kallað eftir því mjög ríkt á síðasta ári að fá tækifæri til þess að endurbæta og virkja eftirlitshlutverk Alþingis, sem því er lögskipað að hafa með höndum, og hefur í þeim efnum leitað ítrekað eftir því við fjármálaráðuneytið að opnað verði fyrir skoðunaraðgang nefndarinnar að þeim gögnum sem hún telur sig þurfa að komast að í ríkisbókhaldinu. Við höfum ekki fengið nein svör við þessu enn þá en mjög brýnt er að úr þessu verði bætt og þá án tafar. Þetta er atriði sem ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að beita sér fyrir úrbótum á og treysti raunar á að svo verði gert.

Meginatriði mitt við umræðuna að koma hér upp í ræðustól undir þessu máli er fyrst og fremst að vekja athygli þingheims á því í hvaða stöðu Alþingi er til þess að reyna að vinna með upplýsingar þegar aldrei hefur verið brýnna en einmitt nú í ljósi efnahagsástandsins og fjármálalegrar stöðu ríkissjóðs, að þær upplýsingar sem Alþingi á að vinna með séu sem ferskastar og sem nýjastar. Það hefur aldrei verið brýnna en nú að þær séu tiltækar. Staðan er eins og ég hef verið að lýsa, því miður, og ég heiti á og skora enn og aftur á hæstv. fjármálaráðherra að beita sér fyrir úrbótum í þessum efnum.