137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

lokafjárlög 2007.

57. mál
[13:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi svör og athugasemdir sem komu fram hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það er ástæða til að ítreka þá stöðu sem fjárlaganefndin er í varðandi þau atriði sem hér hafa verið nefnd. Ég vil fyrst tiltaka að enginn ágreiningur var í nefndinni um það nefndarálit sem lagt var fram fyrr í vor um þetta frumvarp og ber að fagna því að sparaðar eru held ég 500 þús. kr. með því að krota framan á forsíðu frumvarpsins í stað þess að endurprenta það og það er bara til eftirbreytni og hið besta mál.

Ég vil nefna sem dæmi í tengslum við skort á upplýsingum fyrir fjárlaganefnd til að geta rækt þetta eftirlitshlutverk sitt, að við höfum spurt eftir því ítrekað hvernig þessi grunnur að þeim 20 milljarða viðbótarhalla, sem menn ræða um að hafi myndast, sé til kominn. Við höfum engar sundurliðanir séð um það. Við inntum fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins eftir því á þeim fundi sem ég gat um áðan með hvaða hætti þeim væri ætlað eða því ráðuneyti, sem er gríðarlega stórt í ríkisbúskapnum, væri ætlað að koma að því að mæta útgjöldum af þessum 20 milljörðum. Engar óskir eru uppi til ráðuneytisins varðandi það og engar hugmyndir um hvernig það á að útfærast þar. Það er heldur engin áform enn þá uppi að því er okkur var tjáð í fjárlaganefndinni með hvaða hætti heilbrigðisráðuneytið byggi sig undir fjárlög næsta árs, vissi einungis það eitt í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefði sér stað að um niðurskurð yrði að ræða en engar línur þegar komnar í það mál.

Þetta er veruleikinn sem fjárlaganefndin stendur frammi fyrir í þessum efnum gagnvart því að rækja þetta lögbundna eftirlitshlutverk sem henni er áskipað með lögum.