137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:06]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir þetta svar og verð eiginlega að játa að ég hefði kosið að skilningur minn á ræðu hans hefði verið með öðrum hætti, satt best að segja. Það hlýtur að vekja furðu að fulltrúar í hæstv. ríkisstjórn skoði ekki þann möguleika að koma til móts við heimilin í landinu með einum eða öðrum hætti áður en yfirfærsla og mat lána á sér stað úr gömlu, föllnu bönkunum yfir í þá nýju í stað þess að tala, eins og hæstv. fulltrúar ríkisstjórnarinnar gera, um að þessi leið sé ekkert annað en kostnaður fyrir ríkið þegar hér liggur fyrir, frú forseti, að ríkið mun í formi eiganda ríkisbankanna og eiganda Íbúðalánasjóðs kaupa lánasafn gömlu, föllnu bankanna með afföllum en ætlar að rukka íslensk heimili og fyrirtæki að fullu fyrir þá lánsfjárhæð sem stóð upphaflega og stendur þegar yfirfærslan á sér stað, þrátt fyrir afskriftir sem ríkið hlýtur sjálft.

Þetta er með ólíkindum, og það er með ólíkindum að þetta skuli vera ríkisstjórn sem kennir sig við velferð, talar um að byggja velferðarbrú, standa vörð um heimilin í landinu, að hún ætli sér með þessum hætti, úr yfirfærslu gömlu, föllnu bankanna yfir í nýju bankana, að fara að á þennan hátt. Þetta er með ólíkindum og, frú forseti, þetta er dapurlegur atburður fyrir íslenska ríkisstjórn sem vill kenna sig við velferð og að slá skjaldborg um heimilin í landinu, (Forseti hringir.) að hún ætli að fara þannig að að ríkissjóður sjálfur hafi hagnað af því að (Forseti hringir.) yfirfærslan er með þeim hætti sem hún er og að heimilin í landinu beri byrðarnar.