137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ágætismál. Mig langar aðeins til að fara yfir það hvernig kaupin hafa gerst á eyrinni síðan þetta kom fyrst fram.

Það er ljóst að þetta mál á mjög mikinn hljómgrunn í samfélaginu þó að reynt hafi verið að spilla því á margan hátt, m.a. með því að forsætisráðherra bað Seðlabankann að reikna út hvað afskriftirnar sem yrðu til heimilanna næmu hárri upphæð og túlkaði það sem kostnað ríkissjóðs af framkvæmdinni. Það er náttúrlega alls ekki rétt vegna þess að, nákvæmlega eins og hv. þingmaður benti hérna á, hugmyndin er að taka afskriftir sem þegar hafa orðið eða eru í þann mund að eiga sér stað og leiða yfir til heimilanna í landinu.

Þannig liggur í því að við hrunið hækkuðu lán íslenskra heimila gríðarlega mikið. Þau hækkuðu það mikið að gæði lánasafnanna snarminnkuðu. Það gerist vegna þess að heimili og fyrirtæki geta ekki staðið í skilum með lánin eins og þau eru orðin núna þannig að, nákvæmlega eins og hv. þingmaður benti á, þetta er ekki orðin sérstaklega merkileg söluvara. Þess vegna gerist það að hægt er að kaupa þessi lánasöfn á milli gömlu og nýju bankanna með gríðarlega miklum afslætti. Sú tala sem oftast hefur verið nefnd er 50%. Reyndar eru einhverjar raddir um að þetta geti jafnvel orðið meiri afskriftir. Það er auðvitað mismunandi eftir því hvort um fyrirtæki er að ræða eða heimili, heimili eru þrátt fyrir allt bestu skuldararnir. Nákvæmlega eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttur spurði áðan er grunnhugmyndin sú að ef 100 milljónir eru að nafnvirði inni í gömlu bönkunum, lánasafnið síðan keypt yfir til nýju bankanna á 50 milljónir, nýju bankarnir rukka 100 milljónir með þá vissu að svo og svo mörg heimili muni fara á hausinn og svo og svo mörg fyrirtæki sömuleiðis muni á endanum nást inn u.þ.b. 50 milljónir.

Grunnhugmyndin er að í staðinn fyrir að rukka 100 milljónir yrðu rukkaðar 80 milljónir. Þá munu fleiri geta staðið í skilum, færri verða gjaldþrota, vandamálið verður viðráðanlegra og að öllum líkindum, ef rétt er á málum haldið, mundu bankarnir fá þessar 50 milljónir sem eru bókaðar á reikningum hjá þeim.

Lykillinn að þessu er spurningin: Hversu mikil áhrif hefur aðgerðin á greiðsluþol skuldara? Ef við náum með svona aðgerð að minnka gjaldþrot að krónutölu um 25% er aðgerðin algjörlega kostnaðarlaus. Einfaldir bókhaldsútreikningar sýna það.

Hitt er aftur á móti annað mál hvort takist að minnka gjaldþrot þetta mikið við þessa aðgerð. Það þarf að leggjast yfir það, það þarf að fara í einhvers konar rannsóknir og athuga hvort þetta gengur upp. Reyndar hefur trú mín verið sú að aðgerðin muni skila a.m.k. þessu vegna þess að aðgerðin er ekki eingöngu niðurfelling á skuldum, heldur er hún efnahagsaðgerð að því leytinu til að hún ýtir efnahagslífinu af stað sem gerir æ fleirum kleift að standa í skilum, halda vinnu sinni og standa í skilum með lánin.

Það sem ég er búinn að segja eru meira og minna þekktar stærðir. Viðtökurnar sem hugmyndin hefur fengið valda mér aftur á móti nokkurri furðu vegna þess að það er algerlega ljóst, þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafi reynt að draga úr alvarleika þeirrar kreppu sem við búum við núna, í gær held ég að það hafi verið eða a.m.k. á dögunum, er hverjum manni ljóst sem býr í þessu landi að þetta hrun hefur komið stórkostlega við fjárhag heimilanna. Það þýðir ekki að koma upp í ræðustól á Alþingi og segja að þetta sé stórkostlegt ofmat hjá stjórnarandstöðunni og bara einhvers konar popúlismi að tala svona. Það er bara ekki rétt. Sá sem talar svoleiðis er búinn að vera of lengi læstur á skrifstofu í Stjórnarráðinu og er ekki í sambandi við það sem er að gerast.

Það er ein grundvallarforsenda til að þessi aðgerð gangi upp sem hefur valdið mér stöðugt meiri áhyggjum. Hún er sú að þessi flutningur á milli gömlu og nýju bankanna muni eiga sér stað á lánum. Okkur er sagt að endurreisn bankanna tefjist vegna vandamála með svokallaðan gjaldeyrisójöfnuð í bönkunum, sem er rétt, en það hefur kannski ekki verið á allra vitorði að í nóvember á síðasta ári var sett upp nefnd á vegum Fjármálaeftirlitsins sem átti að fara yfir þau mál hvernig ætti að leysa þennan gjaldeyrisójöfnuð til að endurreisn bankanna gæti tekist.

Mér skilst að þessi nefnd sé ekki enn búin að skila niðurstöðu. Við höfum heyrt einhvern ávæning af því hvernig menn sjá fyrir sér að leysa þennan gjaldeyrisójöfnuð sem felst í því að skuldbindingar bankanna eru í íslenskum krónum og eignirnar í erlendum gjaldmiðlum að stórum hluta, sem myndar mikinn ójöfnuð þegar gengið styrkist. Hugmyndin sem maður hefur heyrt, sérstaklega frá hæstv. viðskiptaráðherra, er að til standi að breyta lánum sem eru í erlendum gjaldmiðlum yfir í íslenskar krónur og þá sé búið að leiðrétta þá hættu sem mun skapast þegar gengið styrkist og jafnframt að vaxtaójafnvægið sem ríkir út af vaxtamun milli Íslands og annarra landa hverfi við það. Þetta er mjög athyglisvert.

Ef reyndin er að það eigi að þvinga skuldara til að fara úr gengi sem er núna eitthvað yfir 230 yfir í gengi sem þeir tóku á, sem getur jafnvel verið vísitala miðuð við 100 eða eitthvað annað slíkt, er loksins búið að taka alla von frá íslenskum skuldurum sem skulda í erlendri mynt, loksins. Þá er algjörlega búið að taka frá þeim þá von að e.t.v. muni lánin þeirra lækka með styrkingu krónunnar í framtíðinni. Okkur er sagt, og ég trúi því reyndar, að ef rétt er að málum staðið muni gengi íslensku krónunnar styrkjast. Ég er aftur á móti að verða mjög langeygður eftir að sjá raunhæfar efnahagsáætlanir, ríkisfjármálin, þann trúverðugleika sem þarf að mynda, það að bankarnir séu stofnsettir. Ég er orðinn langeygður eftir þeim aðgerðum vegna þess að þær eru grundvallarforsenda þess að gjaldeyrishöftum verði aflétt, vextir verði lækkaðir og gengið muni styrkjast í framtíðinni.

Það sem ég vildi hnykkja á að lokum og langaði til að fá svarað, því að ég sé að hæstv. fjármálaráðherra er í salnum, er hvort ætlunin sé að þvinga íslenska (Forseti hringir.) skuldara úr erlendum gjaldmiðlum yfir í íslenskrar krónur og hvort menn geri sér (Forseti hringir.) yfirleitt grein fyrir því hvers lags reiðarslag það yrði fyrir íslenska skuldara.