137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:20]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt athugað, því lengur sem við þurfum að bíða eftir að hér komi fram einhverjar raunhæfar aðgerðir í efnahagsmálum, því verðminni verða þessi fasteignalánasöfn. Fyrstu tölur sem maður heyrði um verðmæti safnanna voru 10% afskrift yfir línuna eða eitthvað á því rólinu. Ég hef hins vegar fyrir því nokkra vissu að fasteignasöfn eins þriggja viðskiptabankanna hafi verið metin þannig að í kringum 25% afskriftir verði um að ræða. Ég held að það sé hárrétt athugað að því dýpra og því lengra sem við förum inn í þá óáran sem ríkir á Íslandi, því verðminni verði þessi fasteignasöfn. Þá eru þess meiri tækifæri til að leiða afskriftirnar raunverulega frá kröfuhöfum til heimilanna í landinu. Þó að það kunni að virðast jákvætt, meiri afskriftir, eru þær aðstæður sem eru þá komnar upp í þjóðfélaginu orðnar það slæmar að ég óska okkur þess alls ekki.

Það er brýnt að gera sér grein fyrir því að það er hægt að leiða afskriftirnar áfram. Það er hægt að gera það án kostnaðar ef vel tekst til. Það sem ég held að sé mikilvægt er að margir aðilar eru búnir að ljá máls á því að það sé fullt tilefni fyrir hæstv. ríkisstjórn til að gefa málinu gaum, setjast niður í einhvers konar hópi og reyna að ná samstöðu um málið. Það getur vel verið að menn komist að því að ekkert eigi að gera (Forseti hringir.) en það er a.m.k. í lagi að skoða málið.