137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í vetur ræddum við 18 punkta efnahagsáætlun Framsóknarflokksins. Ég tók virkan þátt í þeirri umræðu og fór í gegnum alla punktana lið fyrir lið. Þeir voru margir athyglisverðir nema sá síðasti og hann er á blaði sem við erum að ræða hér. Ég ætla að halda nánast sömu ræðuna, frú forseti, ég kemst eiginlega ekki hjá því. (Gripið fram í: Þú getur sleppt því.) Ég veit að margir mundu vilja að ég sleppti því.

Afskriftasjóður í banka er ekki eign. Menn skulu hafa það alveg á tæru. Afskriftasjóður er til að mæta afskriftum og er ekki eign. Menn græða ekki á því að tapa og verða gjaldþrota, það er ekki þannig. Afskriftasjóður er til að mæta afskriftum sem bankinn mun örugglega eða með miklum líkum verða fyrir. Ef hann er með 100 fyrirtæki í viðskiptum, fyrirtæki og einstaklinga, og reiknar með því að tapa helmingi af lánunum er afskriftasjóðurinn 50% ef lánin eru öll jafnstór eða svipað dreifð. Eins og hér kom fram innheimtir hann eða reynir að innheimta öll lánin en hann mun ekki ná helmingnum af þeim. Hann mun tapa helmingnum þó að hann reyni að innheimta öll lánin. Hann er ekki að græða neitt, það er engin eign þarna, það er ekkert að finna.

Þá er það spurningin sem kom fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni. Hann setti ákveðinn fyrirvara, enda búinn að hlusta á þessa ræðu, um að ef þessi niðurfelling minnkaði gjaldþrotið um 25% væri þetta í lagi. Það er nefnilega aðalpunkturinn. Íslenskir bankar voru búnir að taka óhemjustór lán. Ég heyrði tölu um 12.000 milljarða, jafnvel meira, og það er hugsanlegt að þessir erlendu lánveitendur tapi helmingnum, afskriftin verði 50%, þ.e. 6.000 milljarðar. Þá er meginmálið: Hvernig dreifist það? Hvernig dreifist það, frú forseti? Það er meginmálið. Það veit enginn, a.m.k. ekki ég. Það er einhvern veginn í herbergi einhvers staðar, lokað inni, dulkóðað og ég veit ekki hvað, en það veit enginn og það er vandamálið.

Ég geri ráð fyrir því að þarna séu stór fjárfestingarfélög með óskaplega stórar lántökur og nánast engar líkur á að þau greiði. Þau tóku lán til að kaupa hlutabréf, hlutabréfin féllu niður í kjallara og eignin sem var í fyrirtækinu hvarf og varð að stórum mínus. Það er algjört tap á þessu. Það er ekkert til til að borga lánið. Þarna er afskriftin nánast 100%. Það er ekkert í heiminum sem bjargar þessu, engar virkar afskriftir. Þetta er bara farið og menn geta ekki náð í peningana því að þeir eru ekki til. Þeir fóru með fallandi gengi hlutabréfanna. Ef menn taka lán til að kaupa hlutabréf og hlutabréfin falla myndast stórkostlegur mínus. Þetta skilja menn. Maður fer ekki út í heim og nær í þessa milljarða. Það gerist ekki og þetta er bara tapað. Ég geri ráð fyrir því að stærsti hlutinn af þessum 6.000 milljörðum sem tapaðist sé svona, enda hefur það komið fram. Við erum að upplifa gjaldþrot eins og hjá Stoðum og fleirum þar sem sáralítið næst upp í kröfur.

Síðan eru framleiðslufyrirtæki sem sum hver tóku ævintýralega áhættu með því að kaupa hlutabréf, eins og t.d. í Landsbankanum — við fréttum af fyrirtæki í Grundarfirði — og þau tapa. 20% niðurfelling bjargar þar engu, fyrirtækin verða gjaldþrota engu að síður, þetta eru svo stórar tölur. Ég geri ráð fyrir því að meginhlutinn af þessum afskriftum sé þarna án þess að vita það. Þetta er allt saman undir einhverjum huliðshjálmi og það er kannski vandamálið.

Svo eru það einstaklingarnir með bíla- og íbúðalánin sín. Ég geri ráð fyrir að afskriftirnar séu miklu minni vegna þess að menn borga af íbúðinni sinni alveg fram í rauðan dauðann. Það eru talin tryggustu lán sem til eru í heiminum. (Gripið fram í.) Ég reikna með því án þess að vita það að af þessum afskriftum, þessum 6.000 milljörðum, séu 10% afskriftir af íbúðalánum. Ég reikna með því, íbúðalánum bankanna nota bene. Svo er Íbúðalánasjóður líka með lán sem líka lenti í niðurskurði og var reynt að bæta honum tjónið. (Gripið fram í: Nóg er afskrifað …)

Svo er spurningin hverjir tapa. Íbúðalánasjóður tapar náttúrlega. Hann þarf að borga mismuninn af því að hann er með lán á móti, það er bara þannig. Hann var með lán á móti því sem hann lánar út og hann yrði bara að afskrifa eignina um 20% samkvæmt þessu og hitt kæmi sem tap á skattgreiðendur. Það er ekkert sem hindrar það, það er enginn afskriftasjóður þar. Lífeyrissjóðirnir hafa sömuleiðis lánað beint til sinna sjóðfélaga, þeir verða líka fyrir tapi. Ég veit ekki hvað sú tala er stór, en hún er umtalsverð. Mér sýnist að menn líti ekki mikið á vandamál lífeyrissjóðanna sem eru að skerða lífeyrinn þessa dagana.

Svo er spurningin um sanngirnina, frú forseti. Við skulum sjá fyrir okkur manninn í blokkinni sem býr þar með konu og börnum eða konuna í blokkinni sem býr þar með manni og börnum og keypti ekki einbýlishús eins og vinur hans. Hann keyrir um á gamalli dós, árgerð 2002. (Gripið fram í: Það er ekki gamalt.) Jæja, gott og vel, árgerð 2000 í stað þess að kaupa sér jeppa upp á 7 eða 10 millj. eins og vinur hans gerði. Hann skuldar 10 millj. á meðan vinur hans skuldar 100. Hann á að fá 2 millj. á meðan vinurinn fær 20, samkvæmt þessum hugmyndum. Hvers lags sanngirni og réttlæti er það? Ég bara spyr. Að verðlauna þann sem tók áhættu og er í neyslugræðgi að kaupa, eyða, spenna og sólunda, og sá sem var aðhaldssamur og passasamur og tók ekki mikla áhættu á að blæða (Gripið fram í.) því að hann borgar nefnilega (Gripið fram í.) sem skattgreiðandi.

Í haust varð heilmikið eignahrun. Eignir féllu á marga mismunandi vegu og lítið hefur verið talað um eignahrun hlutabréfaeigenda. Menn segja: Þeir tóku áhættu. Jú, vissulega, en af hverju tóku sumir gengistryggð lán? Af hverju gerðu þeir það? Af hverju tóku þeir ekki bara hin venjulegu hefðbundnu verðtryggðu lán á Íslandi? Vegna þess að vextirnir voru lægri. Þeir ætluðu sér að græða, þetta var græðgi. Þeir tóku áhættu, nákvæmlega eins og hlutabréfaeigendur. Af hverju bætum við þá ekki hlutabréfaeigendunum tjónið? Bara á bönkunum þremur töpuðu 45.000 manns að meðaltali 3 millj. hver. Þriðji hver aldraður tapaði að meðaltali 3 millj. Það er enginn að tala um að bæta þeim eitt eða neitt, en það á að lækka skuldir hjá einhverjum. Menn eru bara ekki sjálfum sér samkvæmir. (SDG: Jú.) Nei.

Menn tala um að á höfuðborgarsvæðinu hafi fasteignaverð fallið. Það er rétt, það er búið að falla um 20%, nærri 30% frá því að það var hæst. Þeir tapa sem keyptu sína fyrstu íbúð einhvern tíma á síðustu fimm árum. Lánin hafa hækkað hlutfallslega meira en íbúðin, þ.e. íbúðin hefur lækkað meira, það hefur myndast bil á milli. Þeir sem keyptu áður eru enn þá í gróða vegna þess að íbúðaverð hækkaði alveg ofboðslega fram að þeim tíma. Ég minni á að landsbyggðarmenn hafa búið við það í áratugi og enginn haft áhuga á því. Maður sem byggði nýtt hús á Blönduósi, átti 5 millj. sjálfur, borgaði 20 millj. fyrir bygginguna og tók þar af leiðandi 15 millj. að láni gat selt íbúðina daginn eftir á 10. Hann fór úr +5 millj. kr. eiginfjárstöðu í -5 millj. kr. eiginfjárstöðu og enginn velti vöngum yfir því — enda býr hann á landsbyggðinni. (Gripið fram í: Þetta er rangt, Pétur.) Þetta er búið að vera svona lengi, þeir sem hafa byggt nýjar íbúðir úti á landi fara í mínus eiginfjárstöðu og svo borga þeir af íbúðinni sinni, geta ekki flutt af því að lánin eru hærri en íbúðin. Þetta vandamál er til staðar úti á landi. (Gripið fram í: … hjá þér líka?) Nei, ég er ekki að vilja eitt eða neitt, ég er bara að lýsa staðreyndum. (Gripið fram í: Þú ert að lýsa skoðunum.) Svo segja menn að þetta haldi hagkerfinu gangandi. Þessi aðgerð kostar sennilega 200 eða 300 milljarða. Ef ég ætti 200 milljarða mundi ég ráða alla atvinnuleysingja fyrir 500 þús. kall á mánuði, sem nettó kostar 5 millj. á mann, í tvö ár og það mundi halda atvinnulífinu gangandi miklu frekar en þetta. Það að minnka skuldirnar kemur ekki fram í atvinnulífinu fyrr en löngu seinna þegar menn fara að borga 20% minna á hverju einasta ári í staðinn fyrir að borga 100%. Áhrifin yrðu miklu virkari af að ráða atvinnuleysingja og við mundum ráða við hellingsvandamál því að aðalvandinn er atvinnuleysið.

Því miður, forseti, á ég ekki 200 milljarða.