137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar nýju bankarnir kaupa eignir af gömlu bönkunum á einhverju verði, þurfa menn að semja við kröfuhafa gömlu bankanna. Það er bara þannig. Þeir munu vilja fá mikið verð fyrir þessi bréf sín, fyrir þessa eign sem þeir eru að afhenda í nýju bankana, og þeir eru ekki tilbúnir til að afskrifa meira en þarf. Það er alveg á tæru. Og ef menn ætla að gera eitthvað fram hjá því fá þeir bara á sig málsóknir Það er þannig. Þetta verður væntanlega metið, ég ætla að vona að þetta verði metið þannig að afskriftasjóðurinn sé nægilega stór til að standa undir afskriftunum. Sumir óttast að hann verði ekki nægilega stór þannig að bankarnir byrji með mikið tap. (Gripið fram í: Það er enginn afskriftasjóður.) Það er afskriftasjóður þegar þú kaupir skuldabréf sem er upp á 10 millj. og ef þú kaupir það á 5 millj. þá er afskrift inni í því, hvað sem menn vilja kalla það. En þetta er afskriftasjóður vegna þess að menn búast við að lánin verði ekki greidd og kröfuhafarnir vita það ósköp vel. Þeir leggja mikið mat á það og leggja áherslu á að rannsaka hvernig staða atvinnulífsins er hér til að vita hvað þeir geta krafist mikils.

Varðandi það að eignarhaldsfélögin séu ekki með í þessu, íslensk fyrirtæki eru búin að taka mikla áhættu. Ég nefndi eins og á Grundarfirði félag sem hafði tekið mikla áhættu með því að kaupa í Landsbankanum. (Gripið fram í: … nýja bankanum.) Það er einmitt það sem er undir huliðshjálminum, frú forseti, það er akkúrat vandinn. Það er svo erfitt að tala um þessi mál vegna þess að það veit enginn í rauninni hvað er inni í þessu og hvaða hópar fyrirtækja eru að fá miklar afskriftir og hverjir ekki. En ég vil leyfa mér að fullyrða, án þess að ég viti það, að íbúðalánin séu með tryggari pökkum í þeim eignum sem nýju bankarnir eru að kaupa. Það er eitthvað sem hvorki ég né hv. þingmaður veit eða aðrir, það veit það enginn. Það er vandamálið í umræðunni að menn vita ekki hvernig þessi áhætta dreifist. (Forseti hringir.) Ef ég vissi að íbúðalánin væru með 10% afskriftum þá veit ég að 20% niðurfelling af skuldum veldur mínus.