137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:49]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gott að fá tækifæri til að að ræða þessa þingsályktunartillögu um hugmynd Framsóknarflokksins um 20% afskrift af höfuðstóli lána. Umræðan hefur fært mér heim sanninn um að á þeirri hugmynd er sami ágalli og ég hef rekið augun í áður á hugmyndinni, sem er sá og er hann tvíþættur, að annars vegar leysir hún okkur ekki undan þörf fyrir að grípa til sértækra aðgerða gagnvart þeim sem verst eru staddir (Gripið fram í.) og hún yrði bara greidd úr sameiginlegum sjóðum vegna þess að hún byggir á óraunsærri sýn á hvort verðmæti verði til við yfirfærslu úr gömlu bönkunum í þá nýju.

Áðan var aðeins rætt um afskriftir og ég verð að taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal þegar hann ræddi um eðli afskriftareikninga. Það sem gerist við kaup ríkisins á eignum úr gömlu bönkunum er að þær eru keyptar á gangverði. Í kaupverðinu felst með öðrum orðum niðurfærsla á eignunum til samræmis við vænt virði þeirra. Það er ígildi þess ef banki mundi vegna áætlunar um tap á útlánum sínum færa á afskriftareikning tiltekna fjárhæð. Setjum sem svo að hann teldi rétt að vænta 10% taps mundi hann færa á afskriftareikning 10%. En það þýðir ekki að hann sendi öllum lántakendum bankans bréf um að héðan í frá þyrftu þeir bara að borga 90% af skuldunum sínum, heldur þvert á móti innheimtir hann áfram af öllum en gerir ráð fyrir tapi á móti. (Gripið fram í: Sýndu nú aðeins meiri …) Virðulegi forseti. Er hægt að fá frið til að halda ræðu?

Það sem gerist við yfirfærsluna er að keypt eru lán á raunverði, og af því að hér eru aðallega til umfjöllunar fasteignalán þá byggja þau auðvitað á væntri endurgreiðslu fasteignalána. Það er staðreynd að fasteignalán eru verðmætustu lán banka við aðstæður eins og í dag. Á því leikur enginn vafi. Íslensk fasteignaveðlán eru nú ekki lakari veðlán en svo að bönkunum tókst t.d. að fá fjárfestingarlánshæfi AAA á sérvalið skuldabréfasafn tryggt með slíkum lánum fyrir um ári síðan eða tveimur. Því eru engar forsendur til að ætla að íslensk fasteignaveðlán séu lakar stödd almennt séð en fasteignaveðlán annars staðar að teknu tilliti til þess auðvitað að hér hafa dunið yfir efnahagslegir erfiðleikar og þeir hafa áhrif á endurgreiðslugetu lántakendanna.

Þessi lánasöfn eru í eign kröfuhafa í gömlu bankana og það þarf að kaupa þá eign af þeim á raunvirði. Við þá yfirfærslu verða ekki til einhver verðmæti sem hægt er að dreifa áfram út til annarra lántakenda. Með öðrum orðum, ef við gefum okkur nú að lánasafnið sem um er rætt gangi yfir á 75% af verðinu, af upphaflegu verði, þá felst í því að menn vænta þess að 25% af lánunum innheimtist ekki. En alveg eins og ég tók dæmið af áðan um afskriftareikninginn, þá er það ekki þannig að við þær aðstæður sé hægt að senda bréf til allra og segja: Þið skuluð bara borga 75% af lánunum ykkar. Því þá er verið að veita viðbótarafslátt frá 75% vegna þess að gengið er út frá því að þeir sem hafi getu greiði en að þetta tapist að teknu tilliti til þeirrar staðreyndar.

Með öðrum orðum: Ef um er að ræða átta þúsund lán og gerum ráð fyrir að tvö þúsund lántakendur af þessum átta þúsund geti ekki staðið í skilum, þá er það ekki þannig að sú yfirfærsla geri okkur kleift að senda hinum sex þúsund bréf og segja: Þið þurfið ekki heldur að borga. (Gripið fram í.) Það verða engir frekari — Eru samræður í salnum eða má ég halda áfram með þessa ræðu?

(Forseti (SVÓ): Forseti áminnir hv. þingmenn um að hafa hljóð í þingsalnum meðan hæstv. ráðherra heldur ræðu sína.) (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það sýnir nú nokkurt alvöruleysi hvernig þingmenn Framsóknarflokksins kjósa að tala í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Formaðurinn var að kalla fram í.

Virðulegi forseti. Það er þannig …

(Forseti (SVÓ): Forseti sér enn og aftur ástæðu til þess að áminna hv. þingmenn um að hafa þögn í þingsalnum.)

Virðulegi forseti. Það er með öðrum orðum þannig að ekki verða til nein verðmæti við þessa yfirfærslu sem hægt er að dreifa til þeirra lántakenda sem standa í skilum vegna þess að raunverð verður greitt fyrir eignirnar. Þegar formaður Framsóknarflokksins talaði um í framsöguræðu áðan að íslensk lánasöfn séu almennt óseljanleg kann það að vera staðreynd um lánasöfn banka almennt. En fasteignaveðlán eru vissulega annars eðlis út frá þeim forsendum sem ég rakti áðan og alveg ljóst að ef við bjóðum bönkunum ekki greiðslu sem þeir telja fullnægjandi endurgjald fyrir þessi lán þá er þeim ekki skylt að sæta slíku. Þeir geta borið slíkt undir dómstóla á Íslandi og þeir munu ekki verða látnir sæta afarkostum að því leyti út frá íslenskum lögum. Það er enginn hæstaréttardómari til í landinu sem mun fallast á það að kröfuhafi í þrotabú muni þurfa að sæta því að ríkið taki af honum eignir hans og deili þeim til annarra aðila honum óskyldum. Þannig er ekki íslenskur gjaldþrotaréttur. En það er í reynd sú hugsun sem liggur að baki þessari tillögu.

Auðvitað er rétt sem hér er sagt af tillögumönnum að mikilvægt er að halda vel á samningum við hina erlendu kröfuhafa og gæta þess að bankarnir greiði ekki of mikið fyrir eignirnar. Og hárrétt sem hv. þingmenn Pétur Blöndal og Tryggvi Þór Herbertsson nefndu áðan í andsvörum sín á milli að mjög mikilvægt er að bankarnir byrji ekki á að greiða of mikið fyrir þessar eignir því þá enda þeir auðvitað með undirballans sem við skattborgarar endum á að bera.

Þess vegna skiptir máli að við sækjum fast á hina erlendu kröfuhafa og greiðum alls ekki meira en sannvirði fyrir. Við reynum auðvitað að meta niður þessar eignir sem mögulegt er vegna þess að áhættan af því að sinna þeim og áhættan af því að innheimta þær hverfur til okkar um leið og búið er að greiða fyrir þær og þær komnar í hina nýju banka. Það er frá og með þeirri stundu sem frekari eftirgjöf þessara lána er þá bara á kostnað íslenskra skattborgara.

Þess vegna segi ég að hættan við þessa lausn er sú að hún feli í sér að eftirgjöfin lendi á endanum á sameiginlegum sjóðum okkar af því að ég fæ ekki séð hvernig hægt er að láta erlenda kröfuhafa bera kostnað af niðurfærslu lánanna umfram það sem felst í raunverulegu niðurmati þeirra sem byggir á efnislegum forsendum endurskoðendanna sem þegar eru búnir að vinna sitt mat. Það er kannski hið stóra óútskýrða atriði í þessu máli, sem við komum aftur og aftur að. Því er haldið fram af tillögumönnum að hægt sé að láta hina erlendu kröfuhafa bera þessar byrðar með einhverjum óútskýrðum hætti og það verður ekki auðveldlega séð.

Virðulegi forseti. Af þessum ástæðum sé ég þann stóra ágalla á málinu að það leysir okkur ekki undan þörf fyrir sértækar aðgerðir. Ef við tökum dæmið sem ég nefndi áðan og gefum okkur verðmat sem feli í sér að 25% af lánum innheimtist og við erum að tala um heildarpakka, segjum átta þúsund lán, það þýðir að tvö þúsund lán muni ekki innheimtast, og ef við notum verðlækkunina á lánapakkanum til þess að gefa öllum jafnan afslátt, öllum átta þúsund, þá þurfum við eftir sem áður að grípa til sértækra aðgerða gagnvart þessum tvö þúsund sem munu ekki geta staðið í skilum jafnvel þó þeir fái 20% leiðréttingu. Það er stóri vandinn í þessum tillögum.

Ef hægt væri nú að segja að 20% mundi duga og vera fullnægjandi lausn fyrir einhvern eða allan hópinn þannig að kominn væri þá grunnur til að standa á, þá væri auðveldara að ræða þetta. En það er algjörlega ljóst að svo er ekki heldur er þetta viðbótarniðurfelling sem gagnast öllum óháð því hvort þeir eru í stakk búnir til að greiða skuldir sínar og hún nýtist auðvitað best þeim sem til mestra skulda hafa stofnað. Þess vegna er hún í eðli sínu skattur á landsbyggðina í þágu höfuðborgarsvæðisins því hér hefur skuldsetningin verið mest. Hún er í eðli sínu skattur á eldri borgara og ungt fólk sem ekki stofnaði til skulda til að greiða fyrir því að létta skuldum af okkur á miðjum aldri sem stofnuðum til skulda og höldum hins vegar eignunum sem skuldirnar standa að baki. Þess vegna getur þessi leið ekki talist réttlát leiðréttingarleið.