137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:08]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Erindi ræðu minnar áðan var að útskýra það að við þyrftum að nota þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum til ráðstöfunar mjög varlega til þess að þeir gögnuðust þeim sem eru í verulegum vanda, eru atvinnulausir og eiga í erfiðum greiðsluvanda. Þegar 74% heimila eiga mjög auðvelt með að standa við húsnæðisskuldir sínar þurfa þau augljóslega ekki aðstoðar við. Það er ekki forgangsatriði í mínum huga að létta undir með þeim sem eiga ekki í vanda. Hv. þingmaður á ekki að reyna að hártoga það sem ég sagði. Það sem var sagt var mjög skýrt, 74% heimila eru með greiðslubyrði innan við 30% af ráðstöfunartekjum. Það er samkvæmt öllum viðmiðum hérlendis sem erlendis hófleg greiðslubyrði af húsnæði.

Við þurfum að láta það mæta forgangi að hjálpa hinum sem eru umfram þessi mörk, það eru þeir sem eru í verstum vanda. (Gripið fram í.) Um það eigum við að sameinast en ekki að létta skuldum af fólki sem getur staðið í skilum með þær, eins og þessi tillaga gengur út á.