137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:09]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er í fyrsta sinn sem ég ræði við hæstv. félagsmálaráðherra í ræðustól svo það er rétt að nota tækifærið og óska honum til hamingju. Það kom mér reyndar mjög á óvart að hæstv. ráðherra skyldi vera skipaður félagsmálaráðherra, ekki vegna þess að ég teldi skorta neitt á þekkingu viðkomandi til þess að verða ráðherra fyrir Samfylkinguna, en að hæstv. ráðherra skyldi fá þetta ráðuneyti kom verulega á óvart og sýndi kannski að hæstv. forsætisráðherra er ekki húmorslaus með öllu. Reyndar geri ég ráð fyrir að hæstv. forsætisráðherra sjái fyrir sér ekki síður menntun en starf fyrir hæstv. ráðherra í félagsmálaráðuneytinu, enda hefur hæstv. ráðherra meira en nokkur annar líklega talað á þeim nótum að hér væri allt í besta lagi. Það líklega skýrir málflutning hæstv. ráðherra í dag, hann gerir sér ekki grein fyrir því hversu víðtækur og alvarlegur vandinn raunverulega er.