137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:13]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er afskaplega dýr aðgerð og hún hefur sáralítil hagræn áhrif til skemmri tíma vegna þess að hún felst fyrst og fremst í lækkun höfuðstóls sem kemur til greiðslu á mjög löngum tíma. Ef kenning hv. þingmanns um þessa brauðmolahagfræði í anda Ronalds Reagans gengi yfir höfuð upp er þetta alveg óskaplega dýr leið til að dreifa brauðmolunum. Það er einfaldlega þannig að ég hef enga trú á að þessi brauðmolakenning sé það sem við eigum að leggja til grundvallar við endurreisn efnahagslífs okkar, að dreifa peningum vítt og breitt til þeirra sem þurfa ekki á meðgjöf að halda. Ég tel að við verðum að nota takmarkaða fjármuni við núverandi aðstæður mjög varlega og það er það sem mun hjálpa okkur best.

Ef við ættum peninga í ríkissjóði gætum við auðvitað gripið til víðtækra skattalækkana og það væri gott að eiga inni núna fyrir skattalækkunum sem voru veittar innstæðulaust á árunum 2005 og 2006.