137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst að skýra þurfi aðeins út fyrir hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra einkum þrjár forsendur vegna þess að hann virðist ekki skilja þær eða a.m.k. virðist ekki vilja skilja þær.

Það er náttúrlega númer eitt að við höfum aldrei sagt að þessi aðgerð mundi eyða þörfinni á sértækum aðgerðum en þetta mun minnka þörfina á sértækum aðgerðum ef við höfum rétt fyrir okkur.

Í annan stað erum við að boða efnahagsaðgerð og það er almenn efnahagsaðgerð, svona nákvæmlega eins og menn breyta skattprósentum, það er dæmi um almenna efnahagsaðgerð. Við t.d. rukkum ekki suma 70% bara vegna þess að þeir geta borgað 70% af tekjum sínum eða eitthvað svoleiðis. Við ætlum að gera þetta á ákveðnum sanngirnisrökum vegna þess að þjóðin öll varð fyrir því, höfuðstóll allra þeirra sem skulduðu jókst um 20%, halda má því fram að það sé prósentutalan, og það er þá sanngirnin á bak við þessa efnahagsaðgerð, og hún á að hafa örvandi áhrif. Ef hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra vill skjóta niður þessa örvandi efnahagsaðgerð stendur náttúrlega upp á hann að koma einhverjar (Forseti hringir.) aðrar hugmyndir. Síðan er það líka fullkomin forsenda þessa tillöguflutnings (Forseti hringir.) að kostnaðurinn lendir ekki á sameiginlegum sjóði landsmanna (Forseti hringir.) eins og hæstv. félagsmálaráðherra gengur alltaf út frá í málflutningi sínum.

(Forseti (SF): Forseti biður hv. þingmann að virða ræðutímann.)