137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að orðið „rétt“ er mjög afstætt um þessar mundir. Það er ákaflega erfitt að svara því kannski nákvæmlega hvað er raunverulegt verðmæti þessara eigna. Er það markaðsverð þeirra í dag ef þær eru allar boðnar til sölu? Eru menn ekki almennt sammála um að þá færi fram brunaútsala? (Gripið fram í.) Er það ekki venjan að horfa frekar til þess hvað er líklegt að innheimtist af þessum eignum? Og er það ekki þess vegna sem menn vilja auðvitað ekki selja eignir við þessar aðstæður, að raunvirði þeirra til framtíðar litið er meira en kannski markaður sem er ekki einu sinni til staðar í dag (SDG: Þá bjarga heimilin kröfuhöfum.) er líklegur til að fá. Menn eru því væntanlega fyrst og fremst að meta það og það hefur alltaf legið til grundvallar hvað er líklegt að þessi lán og þessar eignir skili. Þá kemur það mat og menn komast að ákveðinni afskriftaþörf vegna þess að sum lánin innheimtast að fullu en önnur að engu leyti. (Gripið fram í.) Ég held að þetta sé því miður, frú forseti, fyrst og fremst fræðileg umræða í þessu samhengi.