137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú held ég að ég verði að biðjast undan því verkefni. Ég treysti mér ekki til þess að reyna að sannfæra erlenda kröfuhafa um að þeir græði sérstaklega á þessari hugmynd Framsóknarflokksins. (BJJ: Við skulum fara í það.) Það verður einhver annar að taka það að sér. — Já, ég tel alveg sjálfsagt mál að Framsóknarflokkurinn fari í það (BJJ: Þið verðið þá að hleypa okkur að.) að reyna að ræða við þá.

En svo verð ég líka að segja: Hvernig er endalaust hægt að halda því fram að þetta sé allt saman hægt ókeypis? Af hverju útskýra ekki talsmenn Framsóknarflokksins fyrir mér hvernig Íbúðalánasjóður á að lækka eignasafn sitt um 120 milljarða án þess að það komi einhvers staðar við? Hvernig eiga lífeyrissjóðirnir að færa niður eignasafn sitt um fleiri, fleiri tugi milljarða án þess að það komi einhvers staðar við? (Gripið fram í: Þeir eru búnir að því.) Hvernig eiga sparisjóðir og aðrir slíkir aðilar, sem engar afskriftir hafa fengið í neinum yfirfærslum frá öðrum bönkum, að lækka eignasöfn sín bæði hjá heimilum og fyrirtækjum? Þetta er mörg, mörg hundruð milljarða króna aðgerð og stærstur hluti hennar mundi lenda á ríkissjóði fyrr eða síðar.