137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður væntanlega veit var með lögum í vetur öllum gjaldþrotum frestað, eða að gengið væri að fólki, fram á haust til að skapa skjól og svigrúm fyrir fólk til að vinna úr sínum málum og nýta sér þau úrræði sem í boði væru. Það hefur leitt til þess að gjaldþrotum hefur stórfækkað og þau eru sárafá þessa mánuðina.

Mér finnst sú umræða óþörf að bera það á einhverja hér, hvort sem það eru félagar okkar í Samfylkingunni eða einhverjir aðrir, að menn viðurkenni ekki vandann í íslensku samfélagi. Hver hefur ekki gert það og hvers vegna ættu menn ekki að gera það? Ég held að málflutningur af því tagi skili okkur engu.

Veruleikinn er hins vegar sá að skuldsetning íslenskra heimila hefur um langt árabil verið gríðarlegt áhyggjuefni. Menn voru undarlega sofandi, þar á meðal Framsóknarflokkurinn, þegar hún sigldi yfir 200% af ráðstöfunartekjum. Hvenær var það? Árið 2005. Kannski ber Framsóknarflokkurinn með kosningaloforðum sínum í húsnæðismálum (Forseti hringir.) vissa ábyrgð á því hvernig fasteignaverð og skuldir skrúfuðust upp hjá íslenskum heimilum.