137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:54]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ómálefnalegra svar en ég hafði ætlað að kæmi frá hæstv. fjármálaráðherra. Mig langar til að halda mig við þetta mál. Við getum tekið 2. umr. um 90% lánið sem hæstv. ráðherra veit að er ekki ástæðan fyrir þenslunni undanfarin ár. En ímyndum okkur að við kaupum þessi lánasöfn af erlendum kröfuhöfum á 100% raunvirði þeirra. Gefum okkur það, sem allir vita reyndar að muni ekki eiga sér stað. Eftir sem áður erum við að tala um 30 þúsund heimili sem verða með neikvæða eiginfjárstöðu í lok næsta árs og spurningin er: Ætlum við að fara með þessi heimili í gjaldþrot? Það er alveg rétt að fá gjaldþrot eru í dag vegna þess að búið er að lengja í snörunni. Það er ekki búið að losa fólk úr snörunni. Til hvaða úrræða ætlar ríkisstjórnin að grípa til að koma til móts við millistéttina, venjulegt fólk? (Forseti hringir.)

Ég frábið mér það að ég hafi verið ómálefnalegur í málflutningi mínum með Samfylkinguna og ráðlegg hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) að lesa ræðu hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra áðan.