137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hafa verði í huga þegar við tölum um eigið fé — þegar neikvætt eigið fé fólks er skoðað núna erum við væntanlega og vonandi á nokkurn veginn allra óhagstæðasta tíma til að bera þá hluti saman, þ.e. annars vegar lánin sem hafa hækkað vegna verðbólgu og/eða falls krónunnar og hins vegar hefur fasteignaverðið hrunið langt niður, vissulega úr himinhæðum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Að sjálfsögðu vonumst við til þess að þetta mætist aftur við eðlilegar aðstæður og auðvitað er það ekki nýtt að í okkar sögu komi skeið þar sem þetta gerist. Stór hluti misgengiskynslóðarinnar, sem Framsóknarflokkurinn á að kannast mjög vel við og varð á níunda áratugnum, bjó við neikvæðan höfuðstól árum saman en réð samt við að borga af lánum sínum.

Af því að landsbyggðina bar aðeins á góma — hvað halda menn að höfuðstóllinn hafi verið neikvæður hjá sumum Raufarhöfnungum, sem byggðu hús og stóðu svo frammi fyrir því að ef þau voru seljanleg, kannski 10–15 árum síðar, þá var það á 1 millj. kr.? (HöskÞ: 90% lánin hjálpuðu þeim.)