137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[16:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að í þessu sé misskilningur. Það er eins og menn sjái þetta fyrir sér sem einhverja fjármuni sem hægt er að ganga í. Hæstv. fjármálaráðherra talar um þennan sjóð sem við eigum öll að fara að leita að. Það snýst ekki um það. Þetta snýst um að þetta eru tapaðir peningar. Því þarf að koma tapinu til skuldaranna, það sé ekki hægt að halda áfram að rukka 100% af lánum sem liggur fyrir að verði ekki greidd 100%. Við höfum rætt þetta nokkrum sinnum, ég og hv. þm. Pétur Blöndal, frú forseti, og ég skil ekki þessa samlíkingu. Gott og vel, ef við ættum 200 milljarða, ríkissjóður, þá skulum við kannski ráðstafa þeim til að ráða þá 18 þúsund einstaklinga sem eru á atvinnuleysisskrá, en það breytir því ekki að ekki er búið að taka á því tapi sem orðið er varðandi lánin. Það stendur alveg eftir þó að við mundum ráða 18 þúsund manns sem eru á atvinnuleysisskrá og eyða 200 milljörðum í það.