137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[16:31]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson beindi spurningu til mín og vildi fá að vita hvort tillaga sú sem ég bar fram í gær væri í samræmi við stefnu Vinstri grænna. Ég get upplýst hann um að tillagan um að forsætisráðherra skipi nefnd hagsmunaaðila sem fengið hafa það hlutverk að ræða sig niður á einhvers konar lausn sem væri möguleg og ásættanleg fyrir heimili eða skuldara þessa lands, er komin frá efnahagshópi Vinstri grænna. Það þýðir aftur á móti ekki að flokkurinn hafi það á stefnuskrá sinni.

Ég vil hins vegar vísa í ályktun landsfundar Vinstri grænna frá því núna í mars þar sem segir að flokkurinn vilji leita leiða til þess að leiðrétta þessa verðbólguhækkun fasteignalána. Það er stefna okkar og við höfum rætt ýmsar leiðir innan flokksins til þess að leiðrétta lánin, þó þannig að það muni ekki hafa áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs. Við gerum okkur grein fyrir því að niðurfelling eða lækkun á höfuðstóli fasteignalána hjá Íbúðalánasjóði mun þýða útgjaldaauka fyrir Íbúðalánasjóð og það gæti haft áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs. Við höfum því, eins og hæstv. fjármálaráðherra minntist á áðan, velt fyrir okkur hvort hægt væri að frysta þessa lækkun höfuðstóls í einhvern ákveðinn tíma eða á meðan heimilin og fyrirtækin eru að vinna sig út úr þessari efnahagskreppu.