137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[16:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þetta svar. Í ljósi þess að stjórnvöld tala um samráð og að nú sé það gildi samstöðunnar sem verði að vera í fyrirrúmi velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála því að við eigum núna að leggjast yfir það vandamál sem blasir hér við þvert á flokka með okkar helstu sérfræðingum. Ég tel að hér sé ekki um að ræða einkamál ríkisstjórnarinnar, það þarf að hafa samráð við stjórnarandstöðuna og aðila á vinnumarkaði líka. Við þurfum að ná einhverri þjóðarsátt um það hvernig við ætlum að koma þessum málum fyrir í framtíðinni.

Eða ætlum við að horfa upp á að 28.500 heimili verði komin með neikvætt eigið fé, að þúsundir Íslendinga þurfi að ganga inn í héraðsdóm, fá skipaðan yfir sig tilsjónarmann sem á að meta hvað viðkomandi fjölskylda á að eyða í hverjum mánuði og síðan að afskrifa skuldir viðkomandi fjölskyldu? Þetta er niðurlægjandi ferli og ég óska þess ekki að öllu óbreyttu, sem allt stefnir í að verði, að við þurfum að horfa upp á að þúsundir Íslendinga þurfi að ganga þessa leið vegna þess að þetta fólk hefur ekkert af sér gert. Þetta fólk tók einfaldlega sínar ákvarðanir fyrir tveimur eða þremur árum í samráði við sína banka. Það varð forsendubrestur í millitíðinni, bankarnir tóku stöðu gegn íslensku krónunni sem hefur valdið því að lán þessara heimila hafa hækkað heilmikið, að við tölum ekki um þau heimili sem tóku gengisbundin lán.

Aftur á móti blasir sú staða við þessum heimilum að oftar en ekki er jafnvel annar makinn orðinn atvinnulaus, börnin fá ekki vinnu samhliða framhaldsskólanámi eða háskólanámi, það hefur algjör breyting orðið á öllum forsendum. Ég spyr hv. þingmann: Er hún reiðubúin til þess að við leggjumst yfir það þvert á flokka hver staða mála er og sjá hvort við getum ekki komið okkur saman um einhverjar aðgerðir til þess að breyta þessu ástandi?