137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[16:35]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svarið er mjög einfalt. Ég er tilbúin til þess að fara í samstarf við aðra flokka um að ræða hvernig hægt er að ná niður verðlagshækkun fasteignalána og tel að það sé mjög brýnt að gera það vegna þeirrar miklu óánægju sem er úti í samfélaginu með að það séu fyrst og fremst skuldarar sem eigi að bera byrðar fjármálakreppunnar.

Síðan er það spurning sem þessi nefnd þarf að svara hvort svigrúm er til þess að fara út í þær aðgerðir sem Framsóknarflokkurinn leggur til. Það liggur ekki ljóst fyrir eins og er. Fram hefur komið að við vitum ekki hversu mikið útlánasöfn gömlu bankanna, sem nýju bankarnir taka yfir, muni verða afskrifuð. Við höfum heldur ekki fengið upplýsingar frá Seðlabanka Íslands um hversu alvarleg staða heimilanna er, alla vega hvað varðar greiðslugetu þeirra. Það er því mjög erfitt að segja til um það núna hvað muni koma út úr starfi þessa samráðshóps.