137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[16:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessi svör og ég held að hér sé í raun og veru um söguleg tíðindi að ræða, að einn af forustumönnum Vinstri grænna hér á þingi skuli tala svona afdráttarlaust. Það veit á gott að mínu viti ef það er vilji til þess hjá stjórnarflokkunum að við setjumst sameiginlega yfir þessi mál. Við erum að upplifa mjög sögulega tíma, einstaka tíma í sögu lýðveldisins. Það hefur orðið gríðarlegt hrun á sviði efnahagsmála og við þurfum að vera óhrædd við að grípa til óhefðbundinna aðgerða sem ekki hefur verið gripið til áður vegna þess að við höfum aldrei áður horfst í augu við ástand sem þetta.

Ég fagna því yfirlýsingu hv. þingmanns og yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra. Ég á von á því að við munum leggja fram eitthvert mál hér, a.m.k. sá sem hér stendur, um að stofnað verði til þessa samráðsvettvangs þannig að við getum notað sumarþingið til að ráðast að þeim málum sem máli skipta, þ.e. málefnum heimilanna. Það er hárrétt sem hv. þingmaður benti á að það er vaxandi óþol úti í samfélaginu gagnvart þessu aðgerðaleysi, það er vaxandi óþol gagnvart löggjafarsamkomunni. Fólk krefst þess að við grípum til aðgerða, að við komum fram með hugmyndir og tillögur. Þess vegna held ég að fyrsta verk okkar, þvert á flokka, ætti að vera að setjast yfir þessi mál, skipa okkar færustu sérfræðinga til þess að fara yfir þau, hvað raunhæft er að gera, og kannski að svara spurningunum: Hvað kostar að gera ekki neitt? Hvað mun það kosta íslenskt samfélag ef við fljótum áfram sofandi að feigðarósi? Hvert verður vandamálið þá orðið um áramót?

Við skulum átta okkur á því að þróunin er grafalvarleg og við framsóknarmenn segjum að það þurfi að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða fyrir heimilin og fyrirtækin þannig að við getum risið aftur upp úr þeim rústum sem blasa við okkur í efnahagslífinu.