137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[16:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ræðu hans. Ég get tekið undir flestallt sem kom fram hjá honum. Það er gríðarleg mikilvægt að það náist almenn sátt, þó svo að ekki séu miklar líkur á því, því miður, miðað við hvernig umræðan hér hefur þróast, sérstaklega af hálfu ráðherra ríkisstjórnarinnar, að það náist sátt um að bjarga heimilunum og gera það strax.

Ég tek undir að það geti verið mjög skynsamlegt að skipa nefnd til að fara yfir þessi mál en það þarf þá að gerast strax, það þarf að gerast einn, tveir og þrír að þessir hlutir séu bornir saman og þeim velt upp. Það gengur ekki að bíða lengur, það getur ekki beðið lengur þegar heimilin og fyrirtækin eru að brenna.

Ég sakna þess að hæstv. félagsmálaráðherra skuli ekki hafa verið við alla umræðuna. Það kann að vera að hann sé að hlusta á skrifstofu sinni, en ég sakna þess að hann skuli ekki hafa verið hér og tekið meiri þátt í umræðunni því að þetta er umræða sem snertir tugþúsundir heimila á Íslandi og því ættu ráðherrar að sýna því aðeins meiri áhuga sem hér er verið að ræða.