137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

18. mál
[16:51]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um hagsmuni Íslands í loftslagsmálum. Ég er 1. flutningsmaður tillögunnar en meðflutningsmenn eru 23 aðrir hv. þingmenn, þannig að það eru óvenjumargir þingmenn sem standa að tillögunni en þeir eru úr tveimur flokkum, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.

Tillagan var flutt á síðasta þingi og þá var reyndar meiri hluti þingmanna á tillögunni þannig að hefði hún farið til síðari umr. þá hefði hún verið samþykkt. Tillagan gengur út á það að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í samningaviðræðum sem nú fara fram á vegum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og stefnt er að því að ljúki á aðildarríkjaþingi samningsins í Kaupmannahöfn í desember á þessu ári. Í tillögugreininni segir að ríkisstjórnin skuli sérstaklega tryggja að efni og tilgangur ákvörðunar 7. aðildarríkjaþings rammasamningsins nr. 14/CP.7 um áhrif einstakra verkefna á útstreymi á skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar („íslenska ákvæðið“) haldi gildi sínu við samningsgerðina og að svigrúm Íslands til frekari nýtingar sjálfbærra orkuauðlinda á grundvelli „íslenska ákvæðisins“ verði viðurkennt.

Þetta þýðir, virðulegur forseti, að við sem flytjum þessa tillögu teljum að ríkisstjórnin eigi að vinna að því að íslenska ákvæðið haldi gildi sínu og bætt verði við það, þannig að svigrúm Íslands til frekari nýtingar sjálfbærra orkuauðlinda á grundvelli íslenska ákvæðisins verði áfram viðurkennt og bætt verði við það.

Þingsályktunartillaga fór í gegnum umhverfisnefnd á síðasta kjörtímabili og var afgreidd þaðan 6. apríl sl. Þar lagði meiri hluti nefndarinnar til að tillagan yrði samþykkt, bætti við einum nýjum málslið sem er núna lokamálsliður tillögugreinarinnar. Ekki náðist að afgreiða málið og því er það endurflutt hér, virðulegur forseti.

Ef ég fer aðeins í forsöguna þá er alveg ljóst að ríki heims hafa rætt það um langt skeið, margra ára bil, að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og ríkin hafa reynt að koma sér saman um hvernig eigi að gera það. Það var ákveðið að fyrstu skrefin yrðu tekin af iðnríkjum, Annex I ríkjum svokölluðum, og þau ættu að taka á sig tímasett og tölusett markmið. Þróunarríkin áttu hins vegar ekki að gera það og þó að þau mengi mörg talsvert mikið, og sú mengun sem þaðan kemur fari vaxandi, var ekki talið siðferðilega forsvaranlegt að þróunarríkin tækju á sig slíkar skuldbindingar. Vegna þess að iðnríkin hafa verið að auka svo mikið losun sína og hafa fengið út úr því talsverðan hagvöxt væri eðlilegt að hemja ekki þróunarríkin heldur hemja frekar iðnríkin.

Í Kyoto á sínum tíma þar sem samningurinn hófst og þegar fyrstu samningaviðræðurnar voru í höfn, fékk Ísland plús 10% í losun, sem þýðir að þegar miðað er við þröskuldsárið, sem var 1990, máttu Íslendingar á fyrsta skuldbindingatímabilinu, 2008–2012, losa 10% meira af gróðurhúsalofttegundum en þeir losuðu árið 1990. Sumir töldu að það væri alveg stórsnjallt að fá plús 10%, að mega auka mengun um 10%, en það sáu auðvitað allir sem þekkja til þessara mála að það var algjörlega óásættanleg niðurstaða vegna þess að fyrir 1990 var Ísland búið að hreinsa meira og minna allt hjá sér, við vorum búin að hitaveituvæða, við notum ekki olíu og kol nema í algjöru lágmarki miðað við önnur ríki. Því var þetta þröskuldsár ekkert sérstaklega heppilegt fyrir okkur ef svo má að orði komast. Mörg önnur ríki þurftu ósköp lítið að gera til að standast sínar skuldbindingar af því að ný tækni minnkaði losun þeirra stórfenglega, sérstaklega í austantjaldsríkjum.

Það var því ljóst strax að plús 10% yrðu einungis nýtt til að koma á móti aðeins auknum fjölda bíla og þeirri starfsemi sem venjulega fer fram í hefðbundnu árferði. Því var ákveðið að falast eftir svokölluðu íslensku ákvæði og í gang fóru miklar samningaviðræður og sú er hér stendur tók þátt í þeim. Þeirri samningagerð lauk með því að við fengum viðurkennt svokallað íslenskt ákvæði sem felur í sér að það er viðbótarheimild á útstreymi gróðurhúsalofttegunda, tegundinni CO 2 , upp á 1,6 milljónir tonna á þessu skuldbindingartímabili. Þetta var eiginlega box sem við fengum í viðbót við 10%.

Af hverju fékk Ísland þetta? Það er vegna þess að annað var ekki réttlætanlegt. Af hverju segi ég það, virðulegur forseti? Það er vegna þess að hefðum við ekki fengið þetta box, ekki fengið íslenska ákvæðið, hefðum við verið útilokuð frá því að nýta orkulindir okkar til iðjuvera. Það væri algjörlega fráleitt að refsa Íslandi á þann hátt, bæði af hagfræðilegum ástæðum og þeim grundvallarrétti að geta nýtt orkuauðlindir sínar — ekki er verið að refsa Norðmönnum eða öðrum sem dæla upp olíu — fyrir utan það að þetta er líka jákvætt fyrir lofthjúpinn, þetta er gott fyrir umhverfið og gott fyrir lofthjúpinn. Af hverju ætti að neita Íslandi um að framleiða afurðir sem hægt er að framleiða með miklu umhverfisvænni hætti á Íslandi en í þeim ríkjum sem nota kol og olíu til sömu framleiðslu? Þar vísa ég aðallega í álið, að það að framleiða tonn af áli á Íslandi losar 6–8 sinnum minna af gróðurhúsalofttegundum hér af því að við notum vatnsafl eða jarðhita, en sama magn framleitt með kolum og olíu. Það sáu auðvitað allir umhverfisráðherrar sem tóku þátt í þessum viðræðum að það væri algjörlega órökrétt að hindra það að Ísland gæti nýtt vatnsorkuna og jarðvarmann í þessum tilgangi.

Hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson, sem var í stjórnmálum þá eins og nú, sagði um íslenska ákvæðið þegar við vorum að berjast fyrir að ná því fram, að það yrði hlegið út af borðinu, þetta væri svo arfavitlaust að þetta ákvæði yrði hlegið út af borðinu. Það fór nú ekki svo heldur náðist að útskýra fyrir öðrum ríkjum innihald þess og röksemdafærsla okkar náði í gegn. En ég ætla ekkert að draga fjöður yfir það að þetta kostaði mjög mikla vinnu, sérstaklega hjá nokkrum ráðherrum en líka hjá íslenska embættismannakerfinu. Það voru mjög öflugir samningamenn bæði í umhverfisráðuneytinu, iðnaðarráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu, það komu líka aðilar úr forsætisráðuneytinu að þessu, og þegar allt lagðist á eitt tókst að ná íslenska ákvæðinu í höfn.

Ég tel að það hafi verið mjög merkilegur sigur fyrir Ísland að við náðum þessu í gegn á sínum tíma, lítið land sem er ekki með öfluga utanríkisþjónustu miðað við önnur ríki og ekki mjög mikinn embættismannaflota miðað við önnur ríki. Ég tel að það hafi verið stórsigur að ná þessu ákvæði í gegn og hef alltaf furðað mig á því af hverju vinstri flokkarnir, þ.e. Samfylkingin og Vinstri grænir, lögðust í baráttu gegn íslenska ákvæðinu. Það var alltaf verið að tala um það hér að þetta væri undanþáguákvæði, það væri hræðilegt að Ísland fengi að menga meira og gripið var til röksemdafærslu eins og þeirrar að við værum umhverfissóðar, við værum að menga svo mikið miðað við hvern íbúa. Þetta er algjörlega fráleit umræða.

Ég held að skýringin hljóti að vera sú að inn í þessa umræðu alla blandaðist umræða um virkjanir og að flokkar sem voru á móti virkjunum yfirfærðu andstöðu sína á íslenska ákvæðið og hafa aldrei alveg getað viðurkennt það nema einn og einn ráðherra hefur einstaka sinnum þó getað viðurkennt að ákvæðið sé jákvætt fyrir lofthjúpinn. Menn verða aðeins að klippa þetta í sundur, menn eiga ekki að nota andstöðu sína við virkjun gegn íslenska ákvæðinu og segja að það sé ekki umhverfisvænt, af því að íslenska ákvæðið er umhverfisvænt í sjálfu sér. Við getum svo tekið umræðuna á gagnrýnum nótum um virkjanir almennt en menn eiga ekki blanda þeim við íslenska ákvæðið því að það er jákvætt fyrir lofthjúpinn, það er jákvætt að framleiða með endurnýjanlegri orku ef maður miðar við kol og olíu.

Síðan höfum við nýtt okkur íslenska ákvæðið og nú er komið að því að semja upp á nýtt. Samningarnir fara fram eða lokahnykkurinn verður í Kaupmannahöfn í desember næstkomandi. Sú er hér stendur hefur reyndar mjög miklar efasemdir um að það takist. Það er komin ný ríkisstjórn í Bandaríkjunum og forseti Bandaríkjanna, Obama, hefur komið með nýjar hugmyndir inn í þessi mál og það gæti hugsanlega tafið ferlið. Flutningsmenn þessarar tillögu telja að þó að vissulega sé mjög seint af stað farið núna sé freistandi að falast eftir því að ríkisstjórnin haldi þessum hagsmunum til haga. Ekki er þar með sagt að endilega þurfi að nýta allt viðbótarákvæðið, sem vonandi næst, ýmsir aðrir hagsmunir geta haft áhrif á það. Sú er hér stendur er alls ekki á þeim buxunum að virkja eigi allar ár sem renna eða neitt slíkt. Ég tel að náttúruvernd sé mjög mikilvæg en við eigum ekki að koma okkur í þá stöðu að þrengja að okkur varðandi nýtingarmöguleikana. Við eigum að hafa opna möguleika á að nýta þessa orku.

Síðustu ríkisstjórnir hafa verið með mjög óljósa stefnu varðandi íslenska ákvæðið og hvert beri að stefna í því sambandi. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var algjörlega klofin í málinu, Sjálfstæðisflokkurinn vildi ræða um íslenska ákvæðið áfram og ná meiru fram þar fyrir næsta skuldbindingartímabil en það vildi Samfylkingin ekki. Það voru miklar deilur um þetta innan þeirrar ríkisstjórnar og hún gat ekki komist að niðurstöðu. Hæstv. utanríkisráðherra, sem tók þátt í þeim umræðum, sat á girðingunni og treysti sér ekki til að kveða upp úr um hvað hæstv. ráðherra vildi á meðan þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, talaði gegn þessari aðferðafræði en þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, talaði fyrir henni. Sú ríkisstjórn var því algjörlega klofin. Það hefur kannski ekki komið alveg skýrt fram hvað núverandi ríkisstjórn vill í þessu sambandi en ef ég miða við það sem sagt hefur verið áður í umræðunni tel ég nokkuð víst að sú ríkisstjórn sé frekar andsnúin því að reyna að nota sömu hugmyndafræði og nýtt var þegar íslenska ákvæðið náðist.

Við teljum, virðulegur forseti, mjög mikilvægt að þetta mál fari sem fyrst til umhverfisnefndar og fái þar faglega skoðun og verði helst samþykkt af þinginu, á þessu sumarþingi, vegna þess að klukkan tifar og samningaviðræðurnar verða í algleymingi í haust í Kaupmannahöfn. Og þó að það náist ekki saman þar er alveg ljóst að mikill vilji er til þess að ná saman samningi sem fyrst og sú er hér stendur telur reyndar að það sé mjög mikilvægt. Það er mjög mikilvægt að þjóðir heims geti séð fyrir hvaða lausnir verða nýttar á næstu árum til að hemja losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er alveg ljóst að sú er hér stendur og flutningsmenn þessa máls vilja minnka losun gróðurhúsalofttegunda en það á ekki að koma Íslandi í þá stöðu að geta ekki nýtt endurnýjanlegar orkulindir sínar, sérstaklega ekki þegar ljóst er að það er miklu umhverfisvænna fyrir lofthjúpinn að nýta vatnsafl og jarðvarma en kol og olíu sem langflest önnur ríki nota enn þá, því miður. Því er mikilvægt að málið komi hér fram og fái umræðu og svo væri afar æskilegt að ríkisstjórnarflokkarnir eða þeir sem með þessi mál fara fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands í augnablikinu fari að skýra nákvæmlega hvernig þeir ætla að halda á samningaviðræðum okkar.