137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

18. mál
[17:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa rætt þetta mál og ekki síst með flutningsmanni málsins sem þekkir þetta betur en margur hver hér á þingi.

Ljóst er að við erum að tala um mjög mikilvægt mál fyrir íslensku þjóðina ef horft er til framtíðar, fyrir atvinnulífið, atvinnusköpun og þá framtíð sem við ætlum að búa fólki og þjóðfélagi okkar.

Ég tek undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar að öll viljum við, öll höfum við skilning á því að minnka þarf losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og það er mál sem ekkert land, ekki Ísland frekar en önnur lönd, getur látið fram hjá sér fara að fjalla um og taka á af fullri ábyrgð.

Hins vegar er líka mjög mikilvægt að horfa til þess hvernig við komum að því að taka þátt í því mikilvæga starfi, hvað við leggjum til málanna og þar stöndum við mjög framarlega með okkar umhverfisvænu og hreinu náttúruauðlindir sem við viljum nýta og eigum að nýta til þess að skapa atvinnu og leggjast þannig á árarnar með öðrum þjóðum í að minnka losun þessara lofttegunda. Þetta eru mjög miklir hagsmunir, það eru efnahagslegir hagsmunir fyrir okkur að viðhalda þessu ákvæði. Það eru efnahagslegir hagsmunir að því leytinu til að við munum væntanlega þurfa að nýta okkur þær heimildir sem við getum mögulega fengið til þess að halda hér uppi og efla samfélagið á næstu árum og áratugum.

Ég ætla ekki að ræða um einhverjar einstakar tegundir af atvinnu, það er ekki svo. Þetta snýst ekki um það að útvega einhverri atvinnugrein losunarheimild eða eitthvað slíkt. Að mínu viti erum við kannski í raun að tala um einhvers konar varasjóð, að við ætlum að eiga hér varasjóð til þess að hlaupa upp á ef við þurfum á því að halda. Ég sé þetta einhvern veginn þannig fyrir mér og ef ég skil málið rétt. Það hefur sýnt sig að ríkisstjórnin getur vissulega haft og hefur mikil áhrif á hvernig og hvort þær heimildir sem við eigum eru nýttar, ég ítreka það, því að full þörf er á og mjög mikilvægt er að viðhalda því ákvæði og hvet eindregið til að það verði gert.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir mælti fyrir er á mjög greinargóðan hátt rökstutt og útskýrt hvers vegna við eigum að viðhalda þessu ákvæði og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór að sjálfsögðu yfir það ágætlega í sínu máli. Það er mjög mikilvægt að tryggja samningsstöðu Íslands á þessum vettvangi, eða segja má frekar samkeppnisstöðu, það er réttara orðið sem ég var að leita að. Við eigum að tryggja samkeppnisstöðu Íslands meðal þeirra þjóða sem nýta auðlindir og eru að framleiða vörur og annað til útflutnings. Við verðum að vera samkeppnishæf og þar megum við ekkert slá af. Við þekkjum öll hvernig ástandið í okkar ágæta landi er í dag hvað varðar fjárhag, atvinnustöðu og annað, þess vegna verðum við að halda þessu opnu og vera reiðubúin að bregðast við. Ég held að mjög mikil skammsýni sé að líta svo á að við getum leyft okkur að láta þetta sigla fram hjá okkur, að við höfum ekki þörf fyrir þetta. Ef við teljum að svo sé er mjög mikilvægt að við komum fram á mjög ábyrgan hátt hvernig við hyggjumst þá byggja upp þjóðfélagið og allt samfélagið til framtíðar.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það að við verðum að halda fram ýtrustu hagsmunum lands og þjóðar í þessu, við verðum að geta nýtt auðlindir okkar til fjölbreytilegs atvinnulífs. Það er ekki rétt að hengja þetta mál eða þessa þingsályktunartillögu, þetta mikilvæga mál, á einhverjar gamlar umræður eða einhvers konar andstöðu við ákveðna hluti sem hafa verið ræddir margsinnis í þessum sal og í samfélaginu. Hér er um að ræða mál sem þarf að horfa á sem lykil eða einn af okkar þáttum í að byggja upp þjóðfélagið til framtíðar. Við eigum að horfa fram á við og við getum tekið fulla ábyrgð á og tekið þátt í að minnka gróðurhúsalofttegundir í heiminum öllum með því að nýta náttúruauðlindir okkar og því megum við ekki slaka á eða gefa eftir með þetta ákvæði. Það er mikilvægt í allri þeirri vegferð.