137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[17:23]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir litlu máli sem við nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar flytjum saman, auk mín þeir Magnús Orri Schram og Sigmundur Ernir Rúnarsson. Málið er að finna á þskj. 30 en það var áður flutt á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga og kom raunar ekki til 1. umr.

Málið lýtur að breytingu á lögum um lífeyrissjóði, skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og lýtur að því að í þeim lögum er að finna býsna sérkennilegar takmarkanir á heimildum lífeyrissjóða til fjárfestinga þar sem í lögunum er sérstaklega kveðið á um að sjóðunum sé bannað að fjárfesta í íbúðarhúsnæði. Það er skoðun okkar flutningsmanna að hér hafi löggjafinn gengið of langt í að takmarka heimildir lífeyrissjóðanna að þessu leyti. Ekki svo að skilja að það sé meining flutningsmanna að löggjafinn eigi að skikka lífeyrissjóði til þess að fjárfesta í íbúðarhúsnæði, það er ekki svo. En við flutningsmenn teljum að full ástæða sé til að treysta lífeyrissjóðunum sjálfum og stjórnum þeirra til að taka ákvarðanir um hvort þeir telja fjárfestingar í íbúðarhúsnæði þjóna hagsmunum sjóðanna, mæta markmiðum þeirra um langtímafjárfestingar og ávöxtun og að ástæðulaust sé að banna sjóðunum slíka starfsemi.

Við vísum til þess að víða í kringum okkur í Norður-Evrópu hafa lífeyrissjóðir talið það vera farsæla leið að nota hluta af því fé sem þeir hafa til fjárfestinga til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði, auk þess að ef það er góð fjárfesting fyrir sjóðina getur það haft ýmis jákvæð hliðaráhrif. Mikil umsvif lífeyrissjóða til að mynda í Þýskalandi á fasteignamarkaði hafa m.a. leitt til þess að þar er húsnæðismarkaður ekki jafnviðkvæmur fyrir fasteignasveiflum eða fasteignabólum og við þekkjum hér í okkar samfélagi og auðvitað víða annars staðar á Vesturlöndum og um heim allan raunar á síðustu árum vegna þess að þegar mikið af húsnæði er í eigu stórra fjárfesta og leigumarkaður er þróaður dregur það úr þeim miklu sveiflum sem annars geta verið á fasteignamarkaði.

Eins og ég segi og ég árétta það að hér ekki nein hugmynd um að við eigum að segja sjóðunum fyrir verkum, en telji þeir þetta vera góða fjárfestingarkosti eiga þeir að hafa heimildir til þess. Ég hygg að ástæða geti verið til að ætla að staðan á fasteignamarkaðnum núna og öll þau fjöldamörgu verkefni í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem eru í uppnámi, eru ókláruð og óleyst muni á næstu missirum geta falið í sér sannarlega fjárfestingartækifæri fyrir fjárfesta og að lífeyrissjóðirnir eigi að eiga kost á því að fara í slíkar fjárfestingar eins og aðrir fjárfestar í landinu. Að einhverju leyti hefur löggjafinn væntanlega hugsað að takmarka það að sjóðirnir væru að ráðast í óarðbærar fjárfestingar. Ég hygg hins vegar að atburðir síðustu missira undirstriki það með ótvíræðum hætti að fjárfestingar á öðrum sviðum samfélagsins í atvinnufyrirtækjum, í verðbréfum, í skuldabréfum og á ýmsum slíkum sviðum geta sannarlega reynst miklu ótraustari fjárfestingar en fasteignir þó eru fyrir langtímafjárfesta, eins og lífeyrissjóðina, og geta leitt til mikilla áfalla. Það að hafa þennan valkost getur verið hluti af því að skapa festu og meiri dreifingu í eignasafni lífeyrissjóða.