137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

vaxtaákvörðun Seðlabankans.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með mörgum öðrum að stýrivaxtalækkun sú sem ákveðin var í gær olli mér miklum vonbrigðum. Ég taldi að það væru góðar forsendur fyrir að fara lengra í vaxtalækkunarferlinu sem var hafið en stýrivextir hafa lækkað úr 18% í 12% sem er verulegt.

Að því er varðar ríkisfjármálin var peningastefnunefnd fullkunnugt um að vinna við þau var á mjög góðu skriði og hefði ekki átt að koma í veg fyrir, ef það var málið, að fara lægra með stýrivextina. Sú áætlun sem við höfum sett fram, að lagðar verði fram tillögur væntanlega í næstu viku og síðar í mánuðinum skýrsla sem sýnir hvernig tekið verði á hallanum á ríkissjóði á næstu árum, stendur allt saman eins og stafur á bók og mun gera. Hitt er annað mál að mér finnst að miðað við þær forsendur sem nú eru uppi ættu að geta verið forsendur fyrir því að peningastefnunefnd mundi ákvarða annan vaxtaákvörðunardag, sem hún getur gert hvenær sem er. Hún hefur ákveðið vaxtaákvörðunardag 2. júlí nk. en mér finnst ekkert óhugsandi að það séu forsendur fyrir því að hún ákveði vaxtaákvörðunardag fyrr.

Peningastefnunefnd var kunnugt um á hvaða leið ríkisfjármálanefndin sem fjallar um þessi mál er í þessu máli og vissi raunverulega hvað þar var verið að tala um. Við gerum okkur vonir um að við náum niðurstöðu að því er varðar Icesave-deiluna. Við gerum okkur vonir um að ná niðurstöðu að því er varðar Norðurlandasamningana. Við gerum okkur vonir um að það sjáist verulegir áfangar í þessum mánuði um að það standist sem við höfum sagt varðandi endurreisn bankanna. (Forseti hringir.) Og ef við förum líka þá leið að ná einhverri niðurstöðu í þinginu um að sækja um aðild að Evrópusambandinu tel ég að hér séu allar forsendur fyrir stöðugleika sem hægt er að byggja áframhaldandi vaxtalækkun á.