137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

vaxtaákvörðun Seðlabankans.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Út af þessu síðasta veit ég ekki betur en fjárlaganefnd hafi verið kynntar þær meginforsendur sem fjármálaráðuneytið og ríkisfjármálanefndin vinnur eftir að því er það varðar að draga úr hallanum. Það voru einhverjar sambærilegar upplýsingar sem peningastefnunefndin vissi um. En við verðum að athuga það líka þegar við lítum á gengisþróunina frá því að vaxtalækkunin hófst að gengið hefur veikst verulega og skapað verðbólguþrýsting sem hefur komið fram í vísitölumælingum og auðvitað er það, ef þessar breytingar verða á gengi og hækkun verðbólgunnar, ekki betra fyrir heimilin í landinu og fyrirtækin en háir stýrivextir.

Það sem ég hef verulegar áhyggjur af eru þau áhrif sem niðurstaða peningastefnunefndar hefur á þann stöðugleikasáttmála sem var í undirbúningi og var á mjög góðu skriði og maður heyrir að þetta er að setja þann stöðugleikasáttmála í uppnám (Forseti hringir.) og það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því. En ríkisstjórnin heldur sannarlega sínu striki í því að leggja fram þær áætlanir sem boðaðar hafa verið í ríkisfjármálum.