137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

tannheilsa barna og unglinga.

[10:39]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra vegna þeirra frétta sem hafa borist að undanförnu um tannheilsu barna og ungmenna. Haft var eftir formanni Tannlæknafélags Íslands fyrir líklega um tveimur vikum síðan að fjöldi þeirra barna sem aldrei mæta til tannlæknis hafi aukist verulega á Íslandi að undanförnu og það sé líklega vegna mikils kostnaðar. Ég er viss um að þessi hópur á eftir að stækka á næstunni í ljósi þess efnahagsástands sem er í samfélaginu. Þess vegna vildi ég gjarnan fá að heyra hvaða hugmyndir hæstv. heilbrigðisráðherra hefur í þessum málaflokki og hvort verið er að vinna að einhverjum tillögum í ráðuneytinu vegna tannlæknamálanna.

Mig langar að nefna eina hugmynd sem ég vil beina til ráðherra sem lýtur að því að endurskoða það fyrirkomulag sem verið hefur á skólatannlækningum. Þá á ég ekki við að taka upp skólatannlækningar eins og við þekktum þær á árum áður heldur einfaldlega það að taka upp markvissara eftirlit í skólum landsins. Þannig væri með tiltölulega litlum tilkostnaði hægt að koma upp tannlæknastólum í nokkrum skilgreindum lykilskólum sem nemendur af tilteknum svæðum sæktu. Tökum dæmi í Reykjavík. Það mætti sjá fyrir sér 4–6 skóla þar sem aðstaða væri fyrir hendi og þaðan væri þjónustan veitt. Þetta væri fyrst og fremst eftirlit, þetta væru ekki tannviðgerðir heldur gætu börnin mætt í skólana og fengið skoðun og ef í ljós kæmi að gera þyrfti við tennur fengi viðkomandi barn bréf heim með sér og foreldrar yrðu þá að grípa til viðeigandi ráðstafana. Þannig væri ábyrgðin ekki tekin af foreldrum en eftirlitið væri inni í skólunum.