137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

tannheilsa barna og unglinga.

[10:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á mjög mikilvægu málefni og einnig þakka fyrir ágætt framlag inn í umræðuna. Staðreyndin er sú að almennt búa íslensk ungmenni, börn og unglingar, við góða tannheilsu. Tiltekinn hópur gerir það ekki og það er rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns að ýmislegt bendir til að sá hópur fari stækkandi. Við erum að tala um 12–15% barna sem eru afskipt í þessum efnum.

Það sem ég hef gert er að boða til mjög víðtæks samráðs allra þeirra aðila sem að þessum málum koma. Síðastliðinn þriðjudag átti sér stað slíkur fundur í heilbrigðisráðuneytinu þar sem saman komu fulltrúar Tannlæknafélagsins, tannlæknadeildar Háskóla Íslands, fulltrúar skólayfirvalda, fulltrúar sveitarfélaga, fulltrúar frá öllum þeim stofnunum sem að þessu máli koma, Lýðheilsustöð, landlæknisembætti, Barnaverndarstofu, og þar voru ræddar ýmsar leiðir til að fást við þennan vanda. Þess vegna fagna ég þessari hugmynd inn í þá hugmyndapúllíu. Þegar hefur verið boðað til annars fundar í byrjun næstu viku sem verður ívið þrengri. Þar verða fyrst og fremst fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins og frá undirstofnunum. Síðan er ráðgert að efna aftur til víðtækara samráðs á allra næstu dögum vegna þess að í ráði er að setja fram tillögur um leiðir til að ráða bót á þessum vanda. (Forseti hringir.) Tannlæknafélag Íslands og tannlæknadeild Háskóla Íslands hafa staðið fyrir mjög mikilvægu og óeigingjörnu framtaki á laugardögum í sumar og það hefur leitt þennan vanda í ljós svo rækilega að við getum ekki annað en á honum tekið.