137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

tannheilsa barna og unglinga.

[10:43]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir skýr og greinargóð svör við fyrirspurn minni og ég fagna jafnframt því samráði sem hæstv. ráðherra lýsti yfir. Ég er sannfærð um að sú leið sem ég nefndi áðan með þessa útfærslu á skólatannlækningum muni skila sér. Ég hef skoðað þetta nokkuð og reynt að leggja mat á kostnaðinn. Ég held að það sé tiltölulega einfalt og auðvelt mjög víða í skólum landsins að koma upp stólum, t.d. í tengslum við skólahjúkrunarfræðinga, þannig að tilkostnaðurinn ætti ekki að verða mikill. Þetta er fyrst og fremst eftirlit sem við þurfum. Ef eftirlitið leiðir síðan í ljós skemmdir eins og ég sagði áðan er það á valdi og forræði foreldra að fylgja því eftir og fara þá til almennra tannlækna og láta gera við tennur barnanna, vegna þess að því miður eru allt of mörg dæmi um (Forseti hringir.) að börn hafa verið að koma með mjög skemmdar tennur, jafnvel á menntaskólaárum, með tilheyrandi gríðarlegum kostnaði fyrir samfélagið.