137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

tannheilsa barna og unglinga.

[10:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er hárrétt ábending. Ef ekki er gripið til forvarna fellur kostnaðurinn síðar meir af miklum þunga á einstaklingana og á samfélagið. Það þarf að taka á þessu á margþættan hátt.

Það er rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns að ætla má að einhver hluti barna og unglinga sæki ekki tannlæknaþjónustu af fjárhagslegum ástæðum. Síðan eru einnig aðrir þættir: Börn og unglingar eru hreinlega afskipt og eftir að skólatannlækningar, sem voru þó fyrst og fremst hér á höfuðborgarsvæðinu, voru lagðar af fyrir nokkrum árum hefur eftirlitinu hrakað. Það er þó við lýði hjá tilteknum árgöngum.

En þá er spurningin: Hvaða leiðir við eigum að fara? Eigum við að taka aftur upp skólatannlækningar? Eigum við að fara þá leið sem hv. þingmaður nefnir, að samþætta eftirlitið skólahjúkrunarstarfinu? Eða á að fara enn eina leiðina, aðra leiðina, þriðju leiðina, og sjá til þess að tannlæknar (Forseti hringir.) fylgist með tilteknum skólum eða hverfum? Það eru allt leiðir sem eru til umræðu en við stefnum (Forseti hringir.) að því að fá lausn í málið og tillögur á allra næstu dögum eða vikum.