137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

för utanríkisráðherra til Möltu.

[10:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér fyrir nokkrum dögum vorum við að ræða ferð utanríkisráðherra til Möltu og í orðum fjármálaráðherra kom m.a. fram að ráðherrann væri frjáls ferða sinna. Ég hugsa að við getum öll tekið undir að það er mjög gott að hann skuli vera frjáls ferða sinna. Ef ég man rétt kom einnig fram að hann væri þar á eigin vegum eða það var alla vegana gefið í skyn.

Ég hef óljósar heimildir fyrir því að þar hafi verið með í för starfsmenn utanríkisráðuneytisins og því langar mig að spyrja forsætisráðherra hvort þessi ferð hafi verið á vegum ríkisstjórnarinnar, hvort þetta hafi verið opinber ferð og hver tilgangur ferðarinnar hafi þá verið. Ef það er rétt að starfsmenn utanríkisþjónustunnar hafi verið með í för langar mig til að fá upplýsingar um hver tilgangur fararinnar var.

Það er mjög slæmt ef við fáum misvísandi skilaboð í þinginu um ferðir utanríkisráðherra og hvað hann hefur fyrir stafni t.d. á Möltu. Ef hann er í opinberum erindagjörðum þarf það að liggja ljóst fyrir. Því vil ég spyrja forsætisráðherra hvort ráðherrann hafi verið á vegum ríkisstjórnarinnar, hvert erindið var og hvort það hafi þá komið einhver niðurstaða varðandi erindi hans. Mig langar líka að fá svar við því hvort eðlilegt sé að ráðherrann fari í slíka för í ljósi þess að verið er að ræða um Evrópumál í utanríkismálanefnd. Samkvæmt fréttum voru Evrópumál alla vega eitt af því sem hann ræddi við Maltverja. Það væri ágætt ef forsætisráðherra gæti svarað þessu.