137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

för utanríkisráðherra til Möltu.

[10:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að ferðir einstakra ráðherra eru ekki bornar upp í ríkisstjórn og lagðar þar fram til samþykktar. Það er hver og einn ráðherra sem ákveður og metur það sjálfur hvaða ferðir hann fer í. Hann metur það út frá þeim hagsmunum sem þar eru í húfi fyrir Ísland hverju sinni og hvort eðlilegt sé að viðkomandi fundir séu sóttir eða í hvaða heimsóknir viðkomandi ráðherrar fara.

Mér var ekki kunnugt um ferð ráðherrans til Möltu eða að þar hafi verið starfsmenn utanríkisráðuneytisins með í för en ég geri ráð fyrir að ferðin hafi verið á vegum utanríkisráðuneytisins. Mér hefur skilist varðandi þessa ferð, án þess að ég hafi haft tækifæri til þess að ræða hana við hæstv. utanríkisráðherra sem kom til landsins seint í gærkvöldi, að í henni hafi utanríkisráðherra m.a. rætt við ráðamenn á Möltu um ýmislegt sem snertir aðild að Evrópusambandinu og reynslu þeirra af því. Ég tel ekki óeðlilegt að ráðherrann ræði slík mál, ekki síst þegar málin eru svo mikið til umræðu hér á landi eins og raun ber vitni.

Ég held að það sé alveg ljóst að bæði þing og þjóð þurfa að fá eins miklar upplýsingar og kostur er varðandi ýmsa þætti aðildarumsóknarinnar þannig að mér finnst þetta ekki óeðlilegt.

Ég tek eftir því að þingmenn hafa áhuga á þessari ferð. Þessari fyrirspurn er í dag beint til mín og mér skilst að nú í vikunni hafi henni einnig verið beint til fjármálaráðherra. Ég tel því eðlilegast að hæstv. utanríkisráðherra sjálfur svari fyrir þessa ferð sína eftir atvikum í þingsal eða í utanríkismálanefnd.