137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

för utanríkisráðherra til Möltu.

[10:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef nú setið í ýmsum ríkisstjórnum í gegnum árin undir forustu framsóknarmanna og undir forustu sjálfstæðismanna þar sem hefur verið nokkuð um opinberar ferðir í ýmsum tilgangi til ýmissa landa. Ég man ekki eftir því að þessar ferðir hafi sérstaklega verið bornar upp í ríkisstjórn. Málin eru bara einfaldlega með þeim hætti og það eru engar breytingar á hvað varðar þessa ríkisstjórn.

Ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst reynt að sýna aðhald í ferðum og ferðakostnaði eins og á að gera í þeim efnum. Gerðar hafa verið ýmsar breytingar núna á þeim stutta tíma sem ríkisstjórnin hefur setið til að draga úr kostnaði við ferðir. En það er ekkert óeðlilegt við þessa ferð utanríkisráðherra. Þetta er bara með hefðbundnum hætti eins og verið hefur á umliðnum áratugum að einstakar ferðir, hvort sem þær eru opinberar eða ekki, eru ekki ræddar í ríkisstjórninni nema eitthvað sérstakt (Forseti hringir.) sé undir.